HVERJU SÖFNUN VIÐ

Í stofnskrá Hönnunarsafns Íslands er kveðið á um að safnið skuli safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu er lýtur að hönnun, einkum frá aldamótum 1900 og til samtímans.  Safnið á og varðveitir  í dag um 5000 muni. Tæplega 3000 munir hafa verið skráðir í Sarp og má finna hér.  Um er að ræða húsgögn, keramik, grafíska hönnun, textíl, fatahönnun, vöruhönnun, skartgripahönnun og arkitektúr. Árið 2022 bættist fyrsti tölvuleikurinn í safnið, Eve Online.

Frá því að safnið var stofnað árið 1998, hafa aðföng borist safninu með reglubundnum hætti. Stór hluti safneignarinnar eru gjafir en einnig reynir safnið eftir fremsta megni að kaupa inn þýðingarmikla muni fyrir sögu íslenskrar hönnunar.

Safneign Hönnunarsafnsins er einstæð á heimsvísu enda er safnið það eina sem safnar markvisst íslenskri hönnun og heimildum varðandi einstaka hönnuði og verk. Safnið geymir fágæta kjörgripi sem hafa menningarsögulega þýðingu. Stór hluti safnkostsins ber þess þó merki að um tilfallandi gjafir er að ræða og safneignin á nokkuð í land með að sýna á heildstæðan hátt hönnunarsögu ákveðins tímabils, stílsögu þess eða einn flokk hönnunar umfram annan.

Í heimildasafni þarf að stuðla að verkefnum sem lúta að því að skrá samtíma og fortíð í innréttingahönnun og híbýlasögu Íslendinga, s.s. með ljósmyndatökum. Einnig þarf að byggja upp gott heimildasafn um íslenska byggingarlist á 20. og 21. öld en safnið hefur því miður haft lítið svigrúm til þess.

Á föstu sýningu safnsins,Hönnunarsafnið sem heimili, gefur að líta gott þversnið af safneigninni eða um 200 muni.