STEFNA STJÓRNAR FRÁ 2019

Hönnunarsafn Íslands er lifandi safn sem eykur vitund, kveikir neista og skapar tækifæri tengd íslenskri hönnun frá árinu 1900 til framtíðar með því að safna, skrá og miðla. Safnið er vettvangur fyrir samfélag sem lætur sig þessa hluti varða og nýtir sér aðgang að þekkingu og aðstöðu safnsins. Þetta samfélag tekur virkan þátt í að móta safnið. Gestir koma til að njóta þess sem safnið hefur uppá að bjóða.

 

SAFNA
Hönnunarsafn Íslands markar sér söfnunarstefnu fyrir hvert fag hönnunar sem miðar að því að varpa ljósi á og efla þekkingu, skilning og áhuga á hönnun. Söfnunarstefna miðar að því að byggja upp safneign sem er góður grunnur til að miðla, vekja áhuga rannsakenda og getur verið grunnur að rannsóknum á menningarsögu Íslendinga sem lýtur að hönnun. Hönnunarsafn Íslands eykur vitund hönnuða og almennings um mikilvægi varðveislu íslenskrar hönnunar og virkjar fólk í þeim tilgangi. Safnið varðveitir og forver safnkost á eins öruggan hátt og kostur er.

 

SKRÁ
Hönnunarsafn Íslands skráir safnkost eftir viðurkenndum aðferðum. Safnið er leiðandi á þessu sviði, fyrirmynd annarra safna og eykur vitund um mikilvægi hönnunar með því að opna skráningu og aðgengi að safnkosti. Skráning á safnkosti er grunnur að góðumsýningum og opnar tækifæri til rannsókna.

 

MIÐLA
Hönnunarsafn Íslands sýnir frumkvæði og er leiðandi í að auka vitund um menningarsögu Íslendinga sem lýtur að hönnun frá árinu 1900 til framtíðar með framúrskarandi fræðslu, sýningum, viðburðum og námskeiðum innan safnsins sem utan sem kveikja neista, varpa ljósi á, efla þekkingu, skilning og áhuga á hönnun.

 

SAMFÉLAG
Hönnunarsafn Íslands eflir samfélag hönnuða, rannsakenda og annarra sem láta sig hönnun varða með því að opna dyrnar, vera lifandi og spennandi viðkomustaður, vera aðstöðugefandi og skapa samtal á milli þessara aðila. Safnið er mikilvægur hluti nærsamfélagsins, eflir vitund og kveikir neista í tengslum við íslenska hönnun með samstarfi við skóla og aðrar stofnanir í nærsamfélaginu. Safnið er skemmtilegur viðkomustaður þar sem fólk gerir sér far um að koma við.