Hugmyndir kvikna og taka flugið, springa út í allar áttir og falla í mismunandi jarðveg.
Safnið á röngunni er hugsað sem rými til tilrauna, rannsókna og samtals. Hér gefst tækifæri til að líta yfir farinn veg, skoða hugmyndir sem hafa orðið að veruleika, þær sem enn bíða og tækifærin fram undan.
Sigga Soffía Níelsdóttir útskrifaðist sem listdansari frá samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2009 og stundaði einnig nám í sirkuslistum við École Supérieure des Arts du Cirque í Brussel. Árið 2021 útskrifaðist hún með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað víðsvegar sem dansari og danshöfundur en er einnig þekkt fyrir flugeldasýningahönnun og blómalistaverk.
Japanska orðið yfir flugelda er hanabi en hana þýðir eldur og bi þýðir blóm. Japanir tala því um eldblóm. Síðastliðin ár hefur Sigga Soffía unnið með þessi hugrenningatengsl í lofti og á láði og hannað flugeldasýningar út frá kóreógrafíu. Þá hefur hún hannað ræktanlega flugeldasýningu blóma, nánar tiltekið blómainnsetningu sem springur út eftir sáningarforskrift. Nýjasta viðbótin við Eldblómaverkefnið er ilmur, drykkjarföng og matvörur auk fjölbreyttrar vöru-
og upplifunarhönnunar. Þannig svífur Sigga Soffía á milli listforma og hönnunar- greina ásamt samstarfsfólki úr ýmsum geirum.
Dans er saminn með svipaðri aðferð og tónlist. Tilfinning og tækni renna saman; taktur, hraði og samhæfðar hreyfingar í bland við keðjuverkanir sólóa, dúetta og hópdansa.
Aðferðirnar við að semja dans geta líka nýst til að bregða á loft margslunginni flugeldasýningu. Fyrst eru teiknaðar upp stórar myndir en síðan birtast minni rammar innan í hverri mynd. Staðsetning sprengiefnisins ræður því hvenær blómin springa út. Líkt og dansari sem stígur inn á svið springa flugeldarnir yfir Tollhúsinu. Kona í rauðum kjól líður inn á sviðið í hringlaga hreyfingu og rauðir flugeldar springa í sömu hringlaga hreyfingunni yfir Faxagarði. Dansari stendur kyrr á miðju sviði og sólir springa yfir miðjum áhorfendahópnum, sitja um stund á himninum áður en þær svífa hægt í fallhlíf til jarðar.
Árið 1926 var fyrsti flugeldurinn í formi blóms hannaður, svo vitað sé. Þar var japanski listamaðurinn Gisaku Aoki að verki og byggði hann þetta fyrsta eldblóm á ofkrýndum krýsa, sem einnig er kallað tryggðarblóm, með frævu. Skotið myndar stilk og út springur blóm. Algengustu flugeldarnir sem nú eru framleiddir eru innblásnir af blómum og trjám af asískum uppruna, oft sumarblómum sem margir rækta í görðum sínum hér á landi.
Þarna fæddist sú hugmynd Siggu Soffíu að rækta flugeldasýningu, hugmynd sem tók hana nokkur ár að móta. Loks varð til verkið Eldblóm – dansverk fyrir flugelda og flóru sem staðsett er í Hallargarðinum í Reykjavík. Verkið samanstendur af 850 blómum af margs konar tegundum sem springa út í fyrir fram ákveðinni röð.
Í framhaldinu kviknaði hugmynd um að taka fræ og lauka að hausti og koma fyrir í kassa með yfirskriftinni „Ræktaðu þína eigin flugelda- sýningu“. Úr varð nýsköpunarfyrirtækið Íslenska flugeldaræktunin, síðar Eldblóm ehf., sem hefur selt Eldblómakassa. Hann líkist flugeldatertu og geymir dalíuhnýði og liljulauka.
Í samstarfi við Zuzana Vondra Krupková garðyrkjufræðing hefur tekist að rækta stórfengleg blóm sem áður var talið ógjörningur að koma upp úr moldinni hérlendis. Kassarnir eru afhentir á vorin og haustin og nú springa litlar „flugeldasýningar“ upp úr jarðveginum á víð og dreif um landið.
Blómin sem Eldblóm vinna með eiga tvennt sameiginlegt. Þau voru fyrirmyndir flugeldahönnuða og eru öll æt. Sú uppgötvun leiddi til samstarfs við drykkjarvöruframleiðandann Foss Distillery. Prófaðar voru 20 blómategundir úr blómabeðinu til að finna hver þeirra bragðaðist best til víngerðar. Í ljós kom að afbrigði krýsa, sem heitir því viðeigandi nafni gneisti (Crysanthemum chispa), kom gríðarlega vel út. Í kjölfarið var garðyrkjustöðin Espiflöt fengin til að rækta blómið án eiturefna. Ekki er vitað til þess að nokkur annar hafi unnið mat eða vín úr þessu tiltekna blómi sem er spænskur kynblendingur og hefur gjörólíka bragðeiginleika borið saman við aðrar tegundir krýsa eða tryggðarblóma. Náttúruleg hráefni ýta undir blómabragðið, sem er einstakt jarðtóna bragð. Önnur hráefni í drykknum eru til að mynda blóðberg og rabarbari frá sunnanverðum Vestfjörðum.
Drykkurinn er kallaður Eldblóma Elexír – hinn íslenski spritz.
Kynningin fyrir drykkinn hefur öðlast sjálfstætt líf sem leiksýning undir yfirskriftinni Eldblómaupplifun og hefur verið lýst sem kóreógrafískum kvöldverði.
Útgáfa af leiksýningunni hefur verið þróuð fyrir börn þar sem áhersla er lögð á að virkja sköpunarkraftinn og skilninginn á því hvernig ein hugmynd þróast í aðra. Eins er brugðið á leik með skala sem getur verið töfrum líkast.
Vöruþróun var hleypt af stokkunum til að ná blómaolíu úr krýsanum og þróa ilm í samstarfi við Fischersund þar sem vinna sérfræðingar í ilmgerð. Fyrsta útgáfan var kynnt í Listvali á HönnunarMars árið 2022. Önnur útgáfa fæst nú í Fisher og á eldblom.is. Aðeins hafa verið framleiddar 130 flöskur af ilminum sem ber nafnið Ilmur náttúrulegra flugelda en rækta þarf gneistablómið (Chrysanthemum chispa) frá grunni fyrir bæði ilminn og drykkinn. Fimm mánuði tekur að fá uppskeru af blómunum.
Sýningarstjórn: Sigríður Soffía Níelsdóttir, Sigríður Sigurjónsdótttir og Una María Magnúsdóttir