Sýning
17.06.2020–06.09.2020

PAPPÍRSBLÓM

Rúna Þorkelsdóttir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971-1976 og hélt síðan til framhaldsnáms við Konstfack-listaskólann í Stokkhólmi og þaðan til Amsterdam þar sem hún stundaði nám við Gerrit Rietveld Academie. Rúna var einn af stofnendum Nýlistasafnsins 1978, listbókaverslunarinnar Boekie Woekie í Amsterdam 1985 og Dieter Roth Academie í Basel árið 2000. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Verk hennar eru varðveitt í listasöfnum vestan hafs og austan.

Bókverkið Paperflowers vann Rúna á vinnustofu sinni í Amsterdam á svokallaða Rotaprint prentvél og var verkið gefið út í 100 árituðum og innbundnum bókum árið 1998. Jafnframt voru prentuð 10 aukaeintök ef hverri mynd sem gefin voru út í lausblaðamöppum og seldist útgáfan fljótt upp. Árið 2007 keypti Tao Kurihara, hönnuður hjá tískuhúsinu Comme des Garçons, Paperflowers í bókverkabúð í Tokyo. Hafði hún samband við Rúnu og hófst þá skapandi samvinna þeirra við gerð fataefnis út frá verkunum. Þær völdu myndir og skeyttu saman beint án þess að nota myndvinnsluforrit, svo greinilega sést að myndirnar eru í upprunalegri A4-stærð með hvítum röndum á milli. Tao Kurihara hannaði síðan sumarlínu úr fataefnunum sem var kynnt á tískusýningu í verslun Comme des Garçons í París 2008. Fatalínan vakti mikla athygli, var fjallað um hana í helstu tískutímaritum og meðal kaupenda flíka úr línunni var Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna.

Árið 2012 keypti Safnasafnið blómamyndaröð í 33 einingum af Rúnu og skömmu síðar byrjaði hún að gefa Safnasafninu einingar úr tímamótverkinu Paperflowers og lauk því ferli með fullnaðargjöf 2019 sem samanstendur af bókverki, áþrykktum efnum, grafíkblöðum og tískutímaritum.
Hönnunarsafn Íslands þakkar Safnasafninu fyrir lánið á verkunum sem hér eru sýnd.

Ljósmyndir: Owen Fiene.