Vinnustofudvöl
15.11.2018–17.03.2019

OGANDEFNI
Skapandivinnustofa

Að þessu sinni eru það AND ANTIMATTER / OG ANDEFNI (&AM) sem munu koma sér fyrir og vinna á Hönnunarsafninu næstu 3 mánuði. Um er að ræða vinnustofu og sölusýningu í safnbúð safnsins.

&AM er skapandi vinnustofa. Stofnendur eru þau Þórey Björk Halldórsdóttir (hönnuður) og Baldur Björnsson (mynd- og raftónlistarmaður). Þau skapa verk, hluti og upplifanir á mörkum hönnunar og myndlistar þar sem þau tvinna saman hæfileika hvors annars í nýjar nálganir.

Meðan á vinnustofudvöl þeirra stendur munu þau vinna ný verk þar sem hugmyndin er að leika sér með hugtakið “vörulína” og sjá hvernig má tengja saman hluti sem ekki eiga sér augljósa tengingu. Vörulínan mun innihalda hluti unna út frá sögu sem ofin var í sérstakt “jacquard” efni sem &AM hefur þróað í samstarfi við hollensku textílverksmiðjuna EE Exclusives. Þrívíddarprentaðar leir- og postulíns tilraunir verða gerðar og húsgögn, tónlist og áfengi verða meðal lokaafurða línunnar. Vörulínan verður gerð í samstarfi við vini frá ýmsum sviðum listgreina og tengjast sögunni sem rakin er í textílnum. Afrakstur þessarar vinnu verður svo að innsetningu á Hönnunarmars 2019 í Gróttuvita á Seltjarnarnesi.