Sýning
13.02.2021–09.05.2021

DEIGLUMÓR
Keramikúríslenskumleir1930–1979

Leirlist hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og er órjúfanlegur hluti af menningar- og listasögu heimsins. Af minjum um leirlist til forna á Íslandi hefur fátt eitt varðveist. Í því sambandi er til orðið deiglumór. Þetta forna orð yfir leir vitnar um notkun leirs til deiglugerðar á Íslandi fyrr á öldum. Sú saga er fallin í gleymsku, en hins vegar var notkun íslenska leirsins forsenda fyrir hinni frjóu leirlistarsögu tuttugustu aldar. Brautryðjandinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, stofnaði Listvinahúsið 1927.  Á árunum 1946 til 1957 voru síðan stofnuð fimm ný leirmunaverkstæði í Reykjavík: Leirbrennsla Benedikts Guðmundssonar, Funi, Laugarnesleir, Roði og Glit. Nokkur af þessum verkstæðum voru stór, með allt að tíu manns í vinnu við framleiðsluna. Þau áttu það öll sameiginlegt að nota íslenskan leir, fram til um 1970. Á þessari sýningu eru verk frá ofangreindum verkstæðum og frá þeim tíma, sem íslenski leirinn var notaður. Leitast er við að gefa innsýn í framleiðslu verkstæðanna og draga fram sérstöðu hvers og eins þeirra. Á verkstæðunum voru hannaðir og framleiddir bæði einstaka módelhlutir og fjöldaframleiddir skrautmunir. Það voru meðal annars stórir vasar, matarstell, styttur og minjagripir fyrir ferðamenn. Mikill listrænn metnaður var lagður í einstaka muni og helstu verkstæðin leituðust við að leiða almenningi fyrir sjónir, að módelhlutir úr leir stæðu jafnfætis málverki eða skúlptúr. Hönnun og framleiðsla íslenskra leirmuna markaði upphaf íslensks listiðnaðar í nútímaskilningi þess orðs.

Sýningin er unnin á grunni bókarinnar Deiglumór, keramik úr íslenskum leir 1930-1970, sem byggir á rannsóknum Ingu S. Ragnarsdóttur á sögu íslenskrar leirlistar.
Sýningarstjórar eru Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir.

 

LISTVINAHÚSIÐ stofnað 1927

Listvinahúsið var fyrsta leirmunaverkstæðið, sem starfrækt var á Íslandi og með stofnun þess var brotið blað í sögu listiðnaðar á landinu. Stofnandi Listvinahússins var Guðmundur Einarsson frá Miðdal myndhöggvari og listmálari með meiru. Guðmundur hafði stundað listnám í München og kynnt sér leirbrennslu þar. Markmið hans var að nýta íslenskan leir til að framleiða vandaðar hönnunarvörur fyrir almenning.

Fyrsta sýning Listvinahússins var haldin í desember 1930. Guðmundur segir: „Aðaláhersla er lögð á að hver og einn vinni sjálfstætt til þess að framleiðslan verði margbreytileg.‟ Framleiddir voru steyptir munir sem Guðmundur mótaði: dýr, fuglar og höggmyndir. Að auki voru renndir munir: skálar og vasar, sem stundum voru tvöfaldir og útskornir.

Tveir helstu starfsmenn Listvinahússins fyrstu áratugina voru þau Lydia Zeitner Pálsdóttir, fyrsti menntaði leirkerasmiðurinn sem starfaði á Íslandi og Sveinn Einarsson frá Miðdal, fyrsti lærlingur Listvinahússins.

Listvinahúsið var eina starfandi leirmunaverkstæðið á Íslandi til ársins 1946 og naut framleiðsla þess mikilla vinsælda. Verkstæðið starfar enn.

 

Funi (1946–1980)

Stofnendur Funa voru fjórir leirkerasmiðir sem allir höfðu lært iðnina í Listvinahúsinu: Baldur Ásgeirsson, Björgvin Kristófersson, Haukur Kristófersson og Ragnar Kjartansson, sem  sá að mestu um hönnunina. Þar voru framleiddir renndir og steyptir munir og voru margir þeirra bæði útskornir og skreyttir. Munirnir voru til dæmis með Suður Amerísku ívafi og þá mátti einnnig sjá háhrif frá forngrískum munum.

Um 1950 var tekin upp skrafító-tækni við skreytingar, málað var beint á hlutinn og svo rissað ofan í með grafískri aðferð.  Fyrsta stóra sýning Funa var haldin 1950 og gagnrýnandi Tímans sagði, að fjölbreytni munanna og listbragð þeirra bæri ljóst vitni um nýja leit í línum og litum í þessari listgrein, hér væri um að ræða upphaf merkilegrar þróunar. Eftir 1953 einkenndist framleiðslan af einföldun í formi auk skreytinga með módernísku myndmáli. Eitt af markmiðum Funa var að framleiða góða hönnunarvöru í það stóru upplagi, að vörurnar gætu verið ódýrar og þannig orðið almenningseign. Hins vegar lagði Ragnar Kjartansson mikinn listrænan metnað í gerð nútímalegra módelmuna. 1957 hætti Ragnar störfum og við það breyttust áherslur Funa og framleiðslan varð hefðbundnari.

 

Glit (1957–1990)

Ragnar Kjartansson, leirkerasmiður, stofnaði Glit 1957. Markmið hans var að hanna og framleiða metnaðarfulla muni úr íslenskum leir. Í fyrsta lagi listkeramik eða módelhluti, í öðru lagi hágæða hönnunarvöru í litlu upplagi og í þriðja lagi fjöldaframleidda, smekklega gjafavöru fyrir almenning. Hann fullþróaði einnig hraun- og keramikblöndu, sem nefnd hefur verið hraunleir, og var notuð til að að renna og móta úr. Ragnar vann með hraunkeramik á mjög markvissan hátt, þar sem grófleiki efnisins og þrívíðir eiginleikar þess voru stefnumótandi og nutu sín. Ragnar fékk fjölda listamanna til samstarfs við sig, til dæmis Dieter Roth, Steinunni Marteinsdóttur og Hring Jóhannesson. Glit tók þátt í fjölda alþjóðlegra sýninga erlends og vakti athygli fyrir vandaða og nútímalega muni. Verkin frá Glit voru oft einföld og formströng, glerungarnir mattir og í mildum jarðlitum. Skreytingar voru ýmist símunstraðar með pensluðum litbrigðum, eða tilbrigði við klassískar skrafító-skreytingar. Verk frá Glit nutu mikillar velgengni, ekki síst erlendis. Glit var gert að stórfyrirtæki um 1971 en starfseminni var hætt um 1990.

 

Laugarnesleir (1947–1953)

Gestur Þorgrímsson  og Sigrún Guðjónsdóttir stunduðu listnám í Kaupmannahöfn, Gestur lagði stund á höggmyndalist og Sigrún málaralist. Þau fluttu heim og stofnuðu Laugarnesleir 1947, en hvorugt þeirra hafði þekkingu á leirmunagerð. Með góðri aðstoð tókst þeim að koma starfseminni af stað. Þau fengu til liðs við sig tvo unga, erlenda myndlistarmenn, Dolindu Tanner og Waistel Cooper. Gestur renndi munina, en form þeirra voru oft flókin og hver munur einstakur. Hin þrjú skreyttu þá á fjölbreyttan hátt, þar sem hver og einn listamaður fékk notið sín. Þó var Picasso mikill áhrifavaldur þeirra allra. Í stefnuskrá þeirra segir meðal annars: “Við ætlum þessum hlutum jafnan sess á við málverk og höggmyndir … Þess vegna mundi það gleðja okkur ef þér vilduð grandskoða þessa vasa, vínker, kaffikönnur með sama hug og með sömu gagnrýni og málverk og höggmyndir.” Laugarnesleir hætti starfsemi sinni 1953, en Gestur og Rúna endurvöktu leirmunaverkstæðið 1969 og notuðu þá innfluttan leir.

 

Leirbrennsla Benedikts Guðmundssonar (1946–1953)

Benedikt Guðmundsson var myndlistarmaður og menntaður kjötiðnaðarmaður. Hann kynnti sér leirmunagerð í Danmörku og stofnaði síðan leirbrennslu að Sjónarhóli í Reykjavík 1946.  Í Danmörku kynntist hann tveimur leirlistarmönnum, hjónunum Edmund og Normu Andersen og þau komu til starfa hjá honum.

Það sem einkennir framleiðslu leirbrennslunnar er sú skreytitækni, sem notuð var, svokölluð majolika aðferð. Leirkerið eða leirmunurinn var þakinn hvítum, þekjandi glerungi, sem oft var gerður úr blý- og tinblöndu. Glerungurinn var látinn þorna og síðan var málað á yfirborðið. Að lokum var hluturinn brenndur. Þessi aðferð hafði ekki verið notuð hér á landi áður.  Munirnir einkenndust af ljósu yfirbragði og léttleika og voru ríkulega skreyttir. Skreytingarnar voru fjölbreytilegar; dýramyndir, blómamyndir en einnig rytmísk mynstur með módernísku ívafi. Hið ljósa yfirbragð munanna minnir á postulín, en þar sem þeir eru gerðir úr dökkum, íslenskum leir hafa þeir grófara yfirbragð. Þrátt fyrir það eru munirnir einstaklega fágaðir.
Leirbrennslan starfaði til 1953 og var þá lögð niður.

 

Leirbrennslan Roði/S.A.Keramik (1950–1987)

Sigurður Arnórsson, (stundum skrifaður Guðnason) lærði leirkerasmíði í Listvinahúsinu og stofnaði síðan leirmunaverkstæðið Roða ásamt Helga Eggertssyni.  Til að byrja með voru þeir Sigurður og Helgi undir áhrifum frá Listvinahúsinu, enda höfðu þeir báðir unnið þar og lært  gott handverk. Sigurður flutti leirkeraverkstæðið síðar að Heiðargerði 47 og skipti þá um nafn á fyrirtækinu og kallaði S.A. keramik. Hann framleiddi leirmuni af öllum stærðum og gerðum, svo sem vasa og skálar, auk þess sem hann steypti  dúfur og hunda úr leir. Á síðari árum framleiddi Sigurður einnig muni, er voru hraunaðir að hluta og síðan málaðir með sterkum litum sem minna á logandi hraun.

 

Íslenski leirinn (1930–1970)

Rannsóknir á íslenskum leir og tilraunir til leirnýtingar hafa verið gerðar á Íslandi allt frá miðri 17. öld. Guðmundur Einarsson frá Miðdal var fyrstur manna til að koma á fót umtalsverðri leirvinnslu á Íslandi um 1930, eftir margra ára rannsóknir og tilraunir í samvinnu við Jósef Königbauer í München. Síðar fylgdu önnur leirmunaverkstæði fordæmi hans og  á árunum 1930 til 1970 var íslenskur leir notaður í miklu magni til leirmunagerðar með góðum árangri. Leirinn var sóttur í leirnámur víða um land. Í leirblöndu var notaður tvenns konar leir. Annars vegar deiglumór eða móhella og var sá leir oft tekinn í Búðardal eða við Elliðaár. Hins vegar plastískur hveraleir, sem oftast var tekinn á Reykjanesi eða við Laugarvatn. Hvert leirmunaverkstæði vann sinn eigin leir og notaði sína eigin blöndu. Það var mikið verk og erfitt, að sækja leirinn, hreinsa hann og blanda. Upp úr 1970 var vinnslu á íslenskum leir nánast alveg hætt og í staðinn var hafin notkun á innfluttum steinleir.