19.09.2020–31.01.2021

100%ULL

Ull er klassískur, náttúrulegur efniviður með óendanlega möguleika. Á þessari sýningu getur að líta dæmi um vörur úr íslenskri ull sem hönnuðir og handverksfólk er að fást við í dag.

Það eru skiptar skoðanir á íslensku ullinni. Sumum finnst hún ómöguleg en aðrir dásama hana og hafa lýst yfir að erlend ull sé steingeld í samanburði. Hvað sem því líður þá skiptir máli að geta unnið með efnivið úr sínu nánasta umhverfi.

Ullarvinnsla hefur löngum verið samofin handverks- og iðnaðarsögu þjóðarinnar. Í dag telur íslenski sauðfjárstofninn hálfa milljón kindur Um 750 tonn af ull eru nýtt í ullarframleiðslu á hverju ári.

Ullarvörur voru um langt skeið ein helsta útflutningsvara Íslendinga og á miðöldum var vaðmál, sem ofið var úr ull og mælt í álnum, mikilvægur gjaldmiðill. Enn í dag er talað um að komast í álnir í þeirri merkingu að verða efnaður.

Vinnsla á ull fór fram á heimilum samhliða bústörfum til loka 19. aldar þegar hún færðist yfir í vélvæddar verksmiðjur. Á 20. öld var blómleg framleiðsla á fatnaði og vefnaðarvöru á Íslandi. Með breyttri heimsmynd færðist slík framleiðsla til annarra heimshluta þar sem framleiðslukostnaður er lægri. Í dag sér fyrirtækið Ístex um að þvo, meðhöndla og spinna um 99% af allri íslenskri ull en minni og sérhæfðari ullarvinnslur eins og Uppspuni og Þingborg hafa skotið upp kollinum á seinni árum.

Þátttakendur sýningarinnar koma frá ólíkum sviðum hönnunar og handverks en eiga það sameiginlegt að vinna af hugvitssemi með íslensku ullina í sínum afurðum.

Ásthildur Magnúsdóttir, vefari

Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður

Verslunin Kormákur & Skjöldur

Fyrirtækið Kula by Bryndís, sem sérhæfir sig í hljóðvistarlausnum

Samstarfsverkefnið Ró

Ullarvinnslufyrirtækið Ístex

 

Sýningarstjórar: Birgir Örn Jónsson og Signý Þórhallsdóttir

Teiknari: Rán Flygenring

Ljósmyndir: Axel Sigurðarson