Opnun
24.03.202017:00

ÍSLENSKMYNDMÁLSSAGA

Goddur og fjallkonan

Íslensk myndmálssaga er heiti á yfirstandandi rannsókn Guðmundar Odds Magnússonar á sögu grafískrar hönnunar á Íslandi. Opnun vinnustofunnar verður þriðjudaginn 24. mars kl. 17–19.

Skömmu eftir útgáfu Guðbrandsbiblíu á sextándu öld urðu myndir og texti viðskila í prentverki og náðu ekki aftur saman fyrr en upp úr miðri nítjándu öld þegar prentfrelsi gekk í garð. Í rannsókn sinni skoðar Guðmundur Oddur endurfundi myndmáls og texta undir lok 19. aldar – þar er sögð saga brautryðjenda sem unnu prentmyndir, letur og skraut. Fyrstu kynslóð teiknara sem stofnaði Félag íslenskra teiknara (FÍT) er fylgt eftir og slóð þeirra rakin en það fólk lagði grunninn að því sem í dag kallast grafísk hönnun.

Vinnustofan er lifandi staður þar sem unnið er að rannsókninni frá degi til dags. Þar eru sjónrænar heimildir kannaðar og frumgögn hönnuða skráð í safneign Hönnunarsafnsins. Á tímabilinu mars–júlí 2020 má sjá ólíkar niðurstöður birtar í formi ör-sýninga og hugarkorta. Einnig verður útkomu vinnunar miðlað með samtölum, fyrirlestrum og málþingum sem auglýst verða sérstaklega.

Verkefnið hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði og er unnið í samvinnu við Hönnunarsafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Listaháskóla Íslands.