Er bangsinn orðinn leiður á að liggja stanslaust? Vill hann kannski ná að sjá betur hvað þú ert að brasa? Væri þá ekki ráðlagt að smíða stól fyrir hann? Í bangsastólasmiðjunni býrð þú til þinn eigin stól, allt frá hugmynd að veruleika. Þú hannar stólinn, útfærir og setur hann saman. Stólarnir eru unnir að fyrirmynd Enso Mari sem taldi að allir gætu gert sinn eigin stól.
Smiðjan er leidd af Friðriki Steini Friðrikssyni, vöru- og upplifunarhönnuði. Friðrik útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 með BA gráðu í vöruhönnun. Árið 2013 lauk hann MFA gráðu í upplifunarhönnun frá Konstfack í Stokkhólmi. Síðan þá hefur hann starfað við ýmis verkefni tengd hönnun og kennir nú hönnun og smíði við Landakotsskóla.
Smiðjan er hluti af fjölskyldudagskrá Hönnunarsafns Íslands sem fer fram fyrsta sunnudag hvers mánaðar í fræðslurými safnsins. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum.