Unndór Egill Jónsson er myndlistarmaður sem skapar einstök húsgögn úr íslensku birki þar sem náttúrulegum og geómetrískum formum er teflt saman. Hugmyndafræðin á bak við verkin snýst um að blanda saman þessum andstæðu formum á þann hátt að þau styðji hvort annað og gefi tilfinningu fyrir einingu. Handverkið leikur lykilhlutverk í að samruninn heppnist og til að undirstrika það hefur Unndór sett verkstæðið sitt upp á safninu. Þar er verkfærum listamannsins gert hátt undir höfði en þau eru forsenda þess að hægt er að móta efniviðinn. Húsgögnin eru unnin á staðnum og birtast eitt af öðru meðan á sýningunni stendur. Þau endurspegla tímann, náttúruna, verkvitið og hugvitið sem þau spretta úr.
Sýningin er hluti af HönnunarMars 2025.