Pallurinn
06.10.2023–30.12.2023

DolindaTanner
keramikogtextílverk

Dolinda Tanner (1923 – 1967)

Það var ævintýraþráin sem dró Dolindu Tanner fyrst til Íslands. Vinaböndin, náttúran, ástin og listin urðu til þess að hún ílentist hér.

Dolinda var fædd og uppalin Sviss þar sem faðir hennar var verksmiðjueigandi.  Hún nam myndlist í listaháskólunum í Genf og Basel. Eftir námið þráði hún að sjá sig um og ferðast og dvaldi í Bretlandi og Svíþjóð áður en hún kom til  Íslands árið 1948. Þar kynnist Dolinda hjónunum Gesti Þorgrímsssyni og Sigrúnu Guðjónsdóttur (Rúnu) sem fengu Dolindu og Waistel Cooper, skoskan listamann, í lið með sér við að byggja upp Laugarnesleir.  Ekkert þeirra hafði grunn í keramiki en þau létu það ekki á sig fá.

Dolinda hafði góða innsýn í miðevrópskar hefðir og vann undir áhrifum módernismans. Pablo Picasso er greinilegur áhrifavaldur og þaðan koma mögulega líka afrísku áhrifin sem skynja má í mörgum verkum Dolindu. Í verkum hennar koma saman fögur litapalletta, geometrísk og fíguratíf form og hlutir sem geisla af sköpunargleði.

Dolinda fór til Sviss árið 1952 en kom aftur til Íslands níu árum síðar og giftist Ólafi Sv. Björnssyni lögfræðingi. Þau bjuggu á Seyðisfirði þar sem Dolinda kom sér upp keramikverkstæði og vann að list sinni.  Árið 1965 eignuðust þau dóttur, Elísabetu Dolindu, en árið 1967 lést Dolinda og Ólafur ári síðar.

Flestir munirnir á sýningunni eru eru í eigu Elísabetar Dolindu. Hluta munanna fékk hún nýlega úr dánarbúi Ellu Wernli sem var mjög góð vinkona Dolindu í Sviss en hún lést í árslok 2020.