19.11.202313:00–15:00

Eldhúsumræðurmeðsmakki

Í tenglsum við sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili tökum við góðan eldhússnúning. Boðið verður upp á smá smakk frá mismunandi tímabilum á meðan á fyrirlestrunum stendur.

Kl. 13:00
Halldóra Arnardóttir flytur fyrirlesturinn:
Kristín Guðmundsdóttir, híbýlafræðingur. Eldhúsið sem menningarfyrirbæri.

Kristín Guðmundsdóttir (1923-2016) var fyrst Íslendinga til að mennta sig í innanhússhönnun á háskólastigi. Í júní 1943 steig hún um borð í Brúarfoss sem sigldi síðan yfir Atlantshafið og lagðist að bryggju í New York 21. júlí. Kristín brautskráðist frá Northwestern University í Chicago árið 1946 og hélt síðan í framhaldsnám í New York School of Interior Decoration. Hún flaug heim til Íslands árið 1947 með Loftleiðum og hóf þá að miðla hugmyndum sínum um skipulag heimila, eldhúss og herbergja sérstaklega, með hugtökin hagkvæmni, þægindi og fegurð að leiðarljósi. Allt til þess að auka lífsgæði allra heimilismanna.

Halldóra Arnardóttir er listfræðingur og sýningarstjóri hún skrifaði bók um Kristínu Guðmundsdóttur árið 2015 sem gefin var út af Hinu íslenska bókmenntafélagi.

14:00
Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir flytur fyrirlesturinn:
Mesta fjörið er alltaf í eldhúsinu

Í erindinu segir Sigrún frá rannsóknum sínum frá árinu 2007 á eldhúshönnun frá sjónarhóli íbúans. Markmiðið var að kanna hvernig niðurrif veggja, sem breytti eldhússkonsum í opin rými, hélst í hendur við breyttar þarfir, gildi og væntingar til heimilisins í samtímanum.

Sigrún Hanna er þjóðfræðingur sem fæst við rannsóknir á efnismenningu og heimilisháttum. Sigrún hefur áhuga á því hvernig ólíkir þátttakendur hafa áhrif á stöðuga mótun og endurmótun lifandi bygginga í hversdeginum.

Aðgangseyrir að safninu gildir

Ljósmynd: Kristín Guðmundsdóttir híbýlafræðingur var fyrst Íslendinga til að mennta sig í innanhússhönnun á háskólastigi