07.12.2013–09.03.2014

VIÐMIÐ

Sýningarstjóri Paradigm er listamaðurinn Lars Sture og samanstendur sýningin af verkum 18 norskra listamanna sem vinna með gler, keramik og málma. Verkin á sýningunni eru eftir marga af fremstu listamönnum Norðmanna og fór val verkanna fram í náinni samvinnu við þá.

Á sýningunni kemur berlega í ljós sá einstaki hæfileiki sem listamenn hafa til að tengja handverkshefðina við nýjar hugmyndir og ljá sköpunarverki sínu yfirbragð vandaðrar vinnu og frumleika. Verkin á sýningunni eiga það öll sameiginlegt að hafa öðlast líf eftir þrotlausar rannsóknir og prófanir.

Paradigm sýningunni er ætlað að efla sýn og umræður um mismunandi tækni og efnisval sem verkin endurspegla, en um leið kynnumst við hugmyndafræði listamannanna þegar verk þeirra eru skoðuð.

Merking enska orðsins „paradigm“  í þýðingunni „viðmið“ er sennilega algengust þegar átt er við „paradigm shift“ eða „hugarfarsbreytingu“. Inntakinu mætti lýsa á þá leið, að eitthvað sem er horfið hafi verið skipt út fyrir annað nýtt og ólíkt. Notkunin á orðinu „viðmið“ sem heiti sýningarinnar, er að gefa til kynna að lausnin sé fundin – eða öllu heldur, að ný fyrirmynd sé komin til að vera, viðurkennt módel, eðlileg ásýnd, viðmið.

Paradigm var fyrst opnuð í Zagreb í maí árið 2011 og hefur síðan þá verið sýnd í Nuuk, Búdapest, París, Brussel, Kilkenny, Bratislava og nú síðast í Yeoju í Suður –Kóreu. Hér lýkur ferð hennar.

Sýningin er gerð af  norska list- og handverkssambandinu og kostuð af norska utanríkisráðuneytinu.

Verk eftirtalinna eru á sýningunni:

Ulla-Mari Brantenberg, David & Linnéa Calder, Tulla Elieson, Jens Erland, Sidsel Hanum, Karen Klim, Vidar Koksvik, Liv Midbøe, Irene Nordli, Ruta Pakarklyte, Tovelise Røkke-Olsen, Heidi Sand, Leif Stangeby-Nielsen, Marit Tingleff, Svein Thingnes, Gunnar Thorsen, Pål Vigeland.

 

Athygli er vakin á því að frá 6. janúar til 1. febrúar verður sýningunni lokað tímabundið vegna uppsetningar annarrar sýningar í fremra sýningarrými safnsins.