Sýning
01.02.2022–23.10.2022

Sund

Það eru engir viðskiptavinir í sundlaugum landsins, aðeins sundlaugagestir: almenningur á hverjum stað fyrir sig, fólk á öllum aldri með alls konar bakgrunn, alls konar holningu og alls konar sýn á lífið. Mikilvægustu almannagæðin á Íslandi eru fólgin í heita vatninu. Athyglisverðustu almannarýmin eru sundlaugarnar. Laugarnar eru vettvangur þar sem ókunnugir hittast og verða jafnvel málkunnugir, staðir þar sem samfélagið birtist sjálfu sér—á sundfötum.

Sundlaugamenningin snýst um lífsgæði og lýðheilsu, íþróttir, leik, afslöppun og skemmtun,líkamsmenningu, siðmenntun og samneyti. Í sundsamfélaginu svamla fjölbreyttir líkamar og í sturtuklefum almenningslaugarinnar er hversdagsleikinn allsber, óuppstilltur og ófilteraður. Daglegt líf hefur í gegnum tíðina sett mark sitt á sundlaugarnar og gert þær að líkamsræktarstöð, skólastofu, félagsheimili, leikvelli og heilsulind.

Mörg svið hönnunar koma við sögu í sundlaugamenningunni. Arkitektúr gegnir lykilhlutverki og þróun lauganna endurspeglar lifandi samtal arkitekta og samfélags. Grafísk hönnun, vöruhönnun, fatahönnun og upplifunarhönnun koma saman í sundinu. Sundlaugarnar eru samfélagshönnun: þær hafa mótað samfélag, menningu og líkama fólksins í landinu í meira en öld. Samfélagshönnun snýst um að skapa vellíðan og bæta daglegt líf fólks, ekki að skapa
söluvöru.

Sýningin nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi.

Sýningarstjórar: Valdimar T. Hafstein, þjóðfræðingur og Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður.
Grafísk hönnun: Ármann Agnarsson og Helgi Páll.
Sýningin er unnin í samstarfi við Háskóla Íslands. Hún byggir á rannsóknarsamstarfi þeirra Arnar
D. Jónssonar, Ólafs Rastrick og Valdimars Tr. Hafstein sem og rannsóknum þjóðfræðinganna
Katrínar D. Guðmundsdóttur, Katrínar Snorradóttur, Ólafs Ingibergssonar og Sigurlaugar
Dagsdóttur.