Agnes Freyja Björnsdóttir, Silvía Sif Ólafsdóttir og Sylvía Dröfn Jónsdóttir útskrifuðust úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2020. Það sem einkennir verk þeirra eru leikur, húmor og tilraunagleði. Samtöl fólks í sundlaugum og samband manna og fugla mun koma við sögu í hönnunarferlinu sem lýkur með uppskeruhátíð á HönnunarMars 2022 sem verður haldinn 4.–8. maí.
HUNRAÐ HLUTIR SEM VIÐ HEYRÐUM Í SUNDI er áframhald af verkefni sem studio allsber sýndi á HönnunarMars 2021. Sú sýning bar yfirskriftina Hundrað hlutir sem við heyrðum og samanstóð af hundrað setningum á hundrað handgerðum bollum. Þá var áletrunin setningar sem hönnuðirnir heyrðu útundan sér á kaffihúsum en í þetta skiptið prófuðu þær að leggja við hlustir í sundlaugum og gripu setningar úr samtölum til að áletra bollana með.
FUGLABÖÐ er verkefni sem hópurinn vinnur að og verður kynnt á HönnunarMars í Hönnunarsafni Íslands og Ásmundarsal.
Gestir geta verslað beint við hönnuðina á meðan á dvölinni stendur.