28.10.2011–15.01.2012

HVÍTJÓL

Hvít jól er heiti jólasýningar Hönnunarsafns Íslands 2011. Þar gefur að líta fjölbreyttan norrænan borðbúnað úr ýmsum áttum – gamalt í bland við nýtt og kunnuglega hluti í bland við framandi. Í huga mínum eru jólin eitt stórt matarboð: sparistellið á borðum, ilmur af jólasteik og furutré og jólakveðjurnar í útvarpinu auka á hátíðleikann.

Á sýningunni var ákveðið að útbúa eitt stórt hátíðarborð fyrir þrettán gesti og var lögð áhersla á hvítan borðbúnað. Postulínsstellið Mussemalet frá Royal Copenhagen hefur verið algengt jóla- og sparistell á norrænum heimilum um aldir og því má segja að það stell hafi lagt línuna fyrir sýninguna og blái liturinn því fengið að vera með.

Leitað var fanga í safni Hönnunarsafnsins, á heimilum fólks og víðar. Rjúpan, hreindýrshornin og gærukollurinn minna á hátíðarkvöldverðinn, þar sem fjölskyldusiðir leika stórt hlutverk í matargerð og borðhaldi. Á sýningunni má sjá diska, glös, hnífapör og ílát sem hönnunarsagan hefur skilgreint sem framúrskarandi hönnun og er orðin þekkt víða um heim. Þó hafa margir þessara hluta ekki hlotið þann stað í hugum okkar að þeir eigi heima á uppdekkuðu hátíðarborði en þar má auðvitað gera tilraunir eins og víðar og blanda saman gömlu og nýju.

Jólasýning Hönnunarsafnsins er borð minninganna sem leiðir hugann að endurmati og endurnýtingu. Slíkt á vel við á okkar tímum.

Ólöf Jakobína Ernudóttir
sýningarstjóri

 

Verkalista sýningarinnar er hægt að nálgast hér