Á sýningunni Ertu tilbúin frú forseti? er sjónum beint að fatnaði frú Vigdísar Finnbogadóttur, opinberrar persónu úr íslensku samfélagi. Vigdís var fimmtug þegar hún var fyrst kvenna kjörin leiðtogi af þjóð sinni í lýðræðislegum kosningum. Frá fyrsta degi, og í þau 16 ár sem hún gegndi embætti forseta Íslands, var hún eftirsóttur þjóðhöfðingi og fyrirmynd. Nærveru hennar og þátttöku var óskað við fjölbreytileg tækifæri, ekki aðeins hér heima heldur víða um heim.
Verkefni og athafnir Vigdísar fyrstu ár hennar í embætti sköpuðu henni ákveðna ímynd. Hún kom fram fyrir hönd lands og þjóðar og hafði ávallt í huga þá ábyrgð sem þjóðin hafði falið henni. Umkringd jakkafataklæddum ráðamönnum ruddi hún óhikað brautir, hvort sem það var með orðum sínum eða verkum. Þessi ímyndarsköpun lá ekki síst í vali hennar á fatnaði og frá fyrsta degi var hún tákn glæsilegrar nútímakonu, studd áfram af körlum og konum.
Hið stéttlausa íslenska samfélag, eins og við lýsum því gjarnan, endurspeglast ekki síst í þeirri staðreynd að hefðir og siðareglur varðandi klæðaburð tengjast aðeins fáum embættum sem fólk gegnir tímabundið. Búningar opinberra embættismanna hér á landi eiga sér fyrirmyndir hjá öðrum þjóðum og um notkun þeirra gilda alla jafna reglur. Vigdís hafði engar slíkar fyrirmyndir þegar hún var kjörin í embætti, né heldur meitlaða hugmynd um hvernig fataskápur kvenforsetans ætti að vera. Í því fólst tækifæri sem hún nýtti til að skapa sér og þjóð sinni trúverðugleika sem síst skyldi vanmeta.
Með sýningunni Ertu tilbúin frú forseti? er nú fyrsta sinni varpað ljósi á mikilvægan þátt í embætti fyrsta kvenforseta lýðveldisins. Fatnaður sem Vigdís valdi í forsetatíð sinni endurspeglar persónulegan stíl hennar. Fataval hvers og eins er bundið smekk, en hefðir og siðareglur sem fylgja slíku embætti hafa líka áhrif. Við val á fatnaði sem hér er sýndur var leitast við að sýna þann glæsileika og þá miklu vinnu sem fólst í því „að vera Vigdís.“
„Ég var alin upp við það að vera vel til fara af virðingu við umhverfi og fólk.“ – Vigdís Finnbogadóttir
Sýningarskrá var gefin út í tengslum við sýninguna. Fæst í safnbúð.
Sýningarnefnd: Ástríður Magnúsdóttir, Guðrún Hildur Rosenkjær, Harpa Þórsdóttir
Hönnun sýningar: Sigríður Birna Björnsdóttir
Textavinna: Harpa Þórsdóttir, Þóra Sigurbjörnsdóttir
Umsjón með uppsetningu fatnaðar: Dagný Guðmundsdóttir, Guðrún Hildur Rosenkjær
Aðstoð við heimildaöflun og ábendingar : Vigdís Bjarnadóttir
Yfirlestur: Brúarsmiðjan Margrét Sveinbjörnsdóttir, Uggi Jónsson
Þýðingar: María Helga Guðmundsdóttir
Skráning: Þóra Sigurbjörnsdóttir
Útgáfustjórn: Svanfríður Franklínsdóttir
Aðstoð við undirbúning : Heiðrún Þórðardóttir
Tæknileg aðstoð, gínur: Guðmundur Gestsson
Uppsetning, smíði og málun: Helgi Már Kristinsson, Steindór Benediktsson, Brynjar Stefánsson, Sigurbjörn Kristjánsson, Sumarliði Aðalsteinsson, Hjörleifur Sumarliðason.
Grafísk hönnun: Ámundi
Listmálun: Victor Cilia
Lýsing: Ívar Þórisson
Prentun á veggi: Logoflex
Bakhjarlar sýningarinnar:
Ingunn Wernersdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, Elín Sigrún Jóhannesdóttir
Actavis
Borgun, LaugarSpa, RÚV
Já.is
Rio Tinto Alcan