23.03.2011–29.05.2011

ÁGRÁUSVÆÐI

Sýning Hönnunarsafns Íslands á HönnunarMars 2011

Hrafnhildur Arnardóttir eða Shoplifter hefur skapað sér mikla sérstöðu innan listheimsins með notkun á hári í verkum sínum. Nú nýverið hlaut Hrafnhildur mikilvæga viðurkenningu þegar hún var var valin fulltrúi hinna virtu norrænu textílverðlauna sem verða afhent síðar á þessu ári. Hárið í verkum Hrafnhildar gegnir ekki aðeins hlutverki uppistöðu heldur er táknheimur og merkingarbærni þess ríkur hluti af myndsköpun Hrafnhildar. Almennt séð er hárið hluti af sjálfsmynd mannsins, glæsileika hans og hégóma en það getur einnig vakið ónotakennd og er nánast órjúfanlegur hluti þess að skapa ógeðfelldar persónur og mystík og ná fram myndheimi myrkra afla.

Hárið, þessi fínlegi þráður, hefur sótt í sig veðrið í verkum Hrafnhildar og í dag á hún að baki mörg samstarfsverkefni með hönnuðum og listamönnum þar sem verk hennar undirstrika þá þrjá meginþætti sem bera tískuna uppi, fágunina og hið ögrandi og öfgakennda. Það síðastnefnda má oft rekja til djúpra persónulegra túlkana listamanna og hönnuða þar sem fullkominni stjórn á efni, lit og formi er náð. Verk Hrafnhildar hafa víða komið við sögu í tískuheiminum, þá gjarnan í samstarfi við Eddu Guðmundsdóttur stílista í NY og samstarf Hrafnhildar og Bjarkar fyrir albúmið á Medulla er dæmigert fyrir þá skörun sem myndlist og hönnun Hrafnhildar virðist reglulega rata í.

Fatnaður, grímur og skúlptúrar eftir Hrafnhildi og samstarfsaðila hennar er vissulega skapað úr óhefðbundnu efni á tímum endurnýtingar og umhverfissjónarmiða. En þessi sköpun er ekki síst til þess fallin að varpa ljósi á ýmis óræð mörk í menningarsamfélögum. Þess sem er viðtekið á einum
stað en hafnað annars staðar og hugmyndarinnar um fegurð og þess afkáralega og veginum þarna á milli, sem oftar en ekki er varðaður léttleika og húmor.

Harpa Þórsdóttir