Steinunn Marteinsdóttir

 

Hönnunarsafn Íslands efnir til yfirlitssýningar á leirlist Steinunnar Marteinsdóttur.

Steinunn er einstakur leirlistamaður í íslenskri hönnunar- og listasögu. Hún hefur á 55 ára ferli skapað afar persónulegan stíl með verkum sínum sem hún hefur mótað og unnið með krefjandi hætti. Á fyrstu einkasýningu sinni árið 1975 markaði Steinunn þau þáttaskil í íslenskri leirlistasögu að sýna íslenskt landslag á afgerandi hátt með stórum og smáum skúlptúrvösum og veggmyndum.  Afköstin hafa verið mikil og sköpunarþátturinn oft á tíðum dirfskufullur. Sé horft yfir feril hennar á þessum tímamótum má líkja honum við endalausa könnunarferð, þar sem öllu því sem má líkja við vanafestu og stöðnun er storkað.

 

Sýningartímabil er frá 9.janúar – 28. febrúar 2016.

 

Lesa áfram

Í Hönnunarsafni Íslands er verið að undirbúa yfirlitssýningu á leirlistaverkum Steinunnar Marteinsdóttur sem býr og starfar að list sinni að Hulduhólum í Mosfellsbæ. Steinunn á afar langan og farsælan feril að baki og hún er fyrir löngu orðin þekkt fyrir einkar glæsilegt og fjölbreytt framlag til íslenskrar leirlistarsögu. Verk Steinunnar má finna víða, svo sem  í opinberum söfnum og í einkasöfnum hér heima og í útlöndum.

Vegna undirbúnings sýningarinnar óskum við eftir því að einstaklingar og fjölskyldur sem eiga leirmuni eftir Steinunni hafi samband við safnið svo hægt verði að skrá til hlítar muni Steinunnar. Auðvelt er að þekkja leirmuni Steinunnar þrátt fyrir að verk hennar séu einstaklega fjölbreytt, en Steinunn merkir yfirleitt alltaf verk sín SM, S Mart eða Steinunn.

Lesa áfram

Síður

Subscribe to RSS - Steinunn Marteinsdóttir