Samstarf

Hönnunarsafnið hefur verið í samstarfi við Textílfélagið um heimildasöfnun frá félögum þess um feril þeirra og verk. Safnast hefur inn mikið og gott magn upplýsinga. Gögnin verða varðveitt í heimildasafni safnsins þar sem þau verða aðgengileg starfsfólki og fræðimönnum sem rannsaka íslenska hönnunarsögu á hverjum tíma.

Í tengslum við þetta átak í heimildasöfnun eignaðist safnið rúmlega 20 verk eftir félaga Textílfélagins. Með því hefur safneign safnsins styrkst töluvert þegar kemur að textílverkum og kominn er góður grunnur að áframhaldandi söfnun og skráningu á þessu sviði.

Hönnunarsafnið þakkar Ingiríði Óðinsdóttur og Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur sérstaklega fyrir sitt vinnuframlag sem og félögum Textílfélagins fyrir að taka þátt í þessu verkefni.

 

Lesa áfram

Verið velkomin á kynningu á skipulögðu fræðslustarfi fyrir börn og unglinga í menningarhúsum Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar. Á fundinum gefst starfsfólki leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva færi að kynna sér þá fræðsludagskrá og viðburði sem standa þeim til boða á einum stað.

Kynningin fer fram í Salnum (Hamraborg 6 í Kópavogi) miðvikudaginn 14. október kl. 14:30-16:00.

Eftirfarandi menningarhús munu kynna fræðslustarf sitt:
GERÐARSAFN (Hamraborg 4, Kópavogi)
SALURINN (Hamraborg 6, Kópavogi)
TÓNLISTARSAFN ÍSLANDS (Hábraut 2, Kópavogi)
HÖNNUNARSAFN ÍSLANDS (Garðatorgi 1, Garðabæ)
HAFNARBORG (Strandgötu 34, Hafnarfirði)
GLÚFRASTEINN (Mosfellsbæ)
NÁTTÚRUFRÆÐISTOFA KÓPAVOGS (Hamraborg 6a)
HÉRAÐSSKJALASAFN KÓPAVOGS (Digranesvegi 7)
BÓKASAFN KÓPAVOGS (Hamraborg 6a)

Lesa áfram

Sýningin Fingramál er sýning á verkum sex íslenskra hönnuða sem allir eiga það sameiginlegt að vinna með prjón. Sýningin verður opnuð formlega í safninu þann 21. mars kl. 17.

Verkin á sýningunni eru unnin innan ákveðins ramma en þau bera það með sér að hönnuðurnir hafa fullt listrænt frelsi til að tjá sig með hugmyndaflugi sínu. Fantasían í vinnu hönnuða verður ekki alltaf sýnileg þegar hönnun er komin á lokastig en hér er staðnæmst áður en ytri aðstæður, eins og markaður og tíska taka í taumana.

Hönnuðir sem eiga verk á sýningunni: Mundi, Aftur, Erna Einarsdóttir, Bergþóra Guðnadóttir, Volki, Hrafnhildur Arnardóttur aka. Shoplifter.

Sýningin Fingramál er framlag Hönnunarsafnins á HönnunarMars 2012 og stendur til 20. maí næstkomandi. Nánar um sýninguna

Lesa áfram

Stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna hefur valið bestu verkefnin sem unnin voru á árinu 2011 fyrir framlög úr sjóðnum. Í þeim hópi er verkefni sem Arna Rún Gústafsdóttir grafískur hönnuður vann í sumar fyrir Hönnunarsafnið. Verkefni hennar, Greining prentgripa fyrir safneignir, bókarkápur og veggspjöld hafði það að markmiði að nota prentgripi í þessum flokki grafískrar hönnunar úr safneign safnsins, til að útbúa flokkunarkerfi til skráningar slíkra safngripa. Verkefnið var margþætt og mun skila safninu verkferlum við skráningu og til heimildarrannsókna á sögu grafískrar hönnunar á Íslandi.

Hvatinn að verkefninu kom frá Hönnunarsafninu því stefnt er að vinnu söfnunarmarkmiða og innsöfnun prentgripa á næstu misserum. Leiðbeinendur Örnu voru Guðmundur Oddur Magnússon prófessor í grafískri hönnun og Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafnsins.

Lesa áfram

Nú er lokið hljóðfærasmiðju þar sem elstu börnum leikskóla og yngstu börnum grunnskóla ásamt kennurum í Garðabæ hefur verið boðið að koma og taka þátt í listasmiðju undir leiðsögn tónlistarkennaranna Hjartar B. Hjartarsonar og Pamelu De Sensi. Í smiðjunni hafa börnin búið til trompet, flautu, trommu og hristu. Hljóðfærasmiðjan mæltist vel fyrir og voru hin ýmsu tóndæmi æfð. Nemendur vinna svo áfram með hljóðfærin í skólunum og hugmyndin er að útbúa tónverk sem hægt er að spila á Listadögum barna og ungmenna vorið 2012.

Smiðjan var haldin í húsnæði Hönnunarsafns Íslands á Garðatorgi á vegum fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og er hluti af verkefninu HljómList sem er undanfari Listadaga barna og ungmenna 2012.

Lesa áfram

Þann 16. september n.k. standa fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar og Hönnunarsafn Íslands fyrir námsstefnu í nýsköpun og frumkvöðlamennt fyrir leik- og grunnskólakennara í Garðabæ. Námsstefnan verður haldin í smiðju í Hönnunarsafni Íslands.

Dr. Rósa Gunnarsdóttir sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu verður með vinnusmiðju í nýsköpunar og frumkvöðlamennt fyrir starfsmenn leik- og grunnskóla Garðabæjar.

Lesa áfram
Subscribe to RSS - Samstarf