Húsgagnahönnun

Sýningin Óvænt kynni- Innreið nútímans í íslenska hönnun í Hönnunarsafni Íslands verður framlengd til 5. janúar 2014.

Sýningin endurspeglar þann hluta íslenskrar hönnunarsögu sem hefst með innreið módernismans í íslenska híbýlamenningu upp úr 1930 og áhrifa hans fram yfir 1980. Á sýningunni eru munir úr safneign Hönnunarsafns Íslands og annarra menningarminjasafna en einnig koma til óvænt kynni við hluti sem varðveist hafa í heimahúsum.

Lesa áfram

Teborðið sem nú er sýnt á Pallinum er ættað úr smiðju Körfugerðarinnar. Körfugerðin er samofin sögu Blindra-vinafélags Íslands, en Þórsteinn Bjarnason (1900-1986) eigandi Körfugerðarinnar var einn af stofnendum þess árið 1932.

Þórsteinn hélt til Kaupmannahafnar árið 1922, til að leggjast inn á sjúkrahús vegna berkla og lærði körfuiðn í kjölfarið. Hann sneri heim árið 1925 og stofnaði Körfugerðina. Þórsteinn kynntist því í Kaupmannahöfn að blindir unnu við að framleiða hluti úr tágum og að lögð var rækt við menntun og þjálfun þeirra. Honum fannst að eitthvað yrði að gera í málefnum blindra á Íslandi og nýtti sér þekkingu sína til þess. Stuttu eftir stofnun Körfugerðarinnar byrjaði hann að kenna blindum og sjónskertum iðnina.

Lesa áfram

Sunnudaginn 15. september kl. 14 verður dr. Arndís S. Árnadóttir hönnunarsagnfræðingur með leiðsögn um sýninguna Óvænt kynni. Innreið nútímans í íslenska hönnun í Hönnunarsafni Íslands.

Lesa áfram

Armstóllinn á Pallinum er hannaður af Gunnari Theódórssyni (1920-2002). Stóllinn er úr svartlituðum harðvið og klæddur ullaráklæði. Áklæðið er ekki upprunalegt en íslenskt engu að síður og framleitt af Gefjun.

Gunnar Theódórsson stundaði nám í húsgagnabólstrun og síðar innanhússarkitektúr í Kaupmannahöfn á árunum 1938-1945. Eftir að hann kom heim úr námi starfaði hann hjá Húsameistara Reykjavíkurborgar til 1954, rak eigin teiknistofu frá 1954-1971 og vann hjá Skrifstofum ríkisspítalanna frá 1971–1995. Gunnar var einn af stofnfélögum Félags húsgagnaarkitekta árið 1955. Stofnfélagar voru, auk Gunnars, Árni Jónsson, Helgi Hallgrímsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Sigurgísli Sigurðsson og Sveinn Kjarval. Hægt er að skoða gripi eftir þá alla nema Sigurgísla og Gunnar á sumarsýningu safnsins Óvænt kynni. Innreið nútímans í íslenska hönnun

Lesa áfram

ÓVÆNT KYNNI - Innreið nútímans í íslenska hönnun (7.6. -13.10. 2013)

Á sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands er sjónum beint að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska híbýlamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Meginuppistaða sýningarinnar er safnkostur safnsins en einnig er skyggnst inn í geymslur annarra safna og í heimahús þar sem óvænt kynni við hluti og sögur af hönnun komu oft á óvart. Slíkir fundir eiga erindi við samtímann.

Á sýningunni má líta bæði vel þekkta hönnunargripi, einkum húsgögn sem öðlast hafa sess með þjóðinni sem tímamótaverk, en einnig óvænta hluti sem greina má jafnt í verkum nafnlausra smiða sem og framsækinna húsgagna- og textílhönnuða á síðustu öld. Staldrað er við gripi sem varðað hafa veginn og minna jafnframt á að samtímahönnun bergmálar oft það sem á undan kom og að „margt kann öðru líkt að vera“.

Lesa áfram

Út er komin bókin Gunnar Magnússon, húsgögn og innréttingar. Hönnunarsafn Íslands gefur bókina út í samstarfi við fjölskyldu Gunnars. Dr. Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur hefur rannsakað feril Gunnars, hún ritar ítarlegan texta um feril hans og lýsir helstu verkum í máli og myndum.

Gunnar Magnússon er meðal afkastamestu og frumlegustu húsgagnahönnuða og innanhússarkitekta okkar og hefur markað djúp spor í sjónræna  vitund og daglegt umhverfi margra Íslendinga. Á yfir fjörutíu ára starfsferli teiknaði hann húsgögn og innréttingar  fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir, hannaði skákborðið fyrir „einvígi aldarinnar“, vann að hönnun innréttinga í skip og flugvélar, tók þátt í fjölda sýninga og
kenndi um árabil við Iðnskólann í Reykjavík.  Þar hafði hann sterk áhrif á komandi kynslóðir hönnuða og handverksmanna.

Lesa áfram

Sýningin Fingramál er sýning á verkum sex íslenskra hönnuða sem allir eiga það sameiginlegt að vinna með prjón. Sýningin verður opnuð formlega í safninu þann 21. mars kl. 17.

Verkin á sýningunni eru unnin innan ákveðins ramma en þau bera það með sér að hönnuðurnir hafa fullt listrænt frelsi til að tjá sig með hugmyndaflugi sínu. Fantasían í vinnu hönnuða verður ekki alltaf sýnileg þegar hönnun er komin á lokastig en hér er staðnæmst áður en ytri aðstæður, eins og markaður og tíska taka í taumana.

Hönnuðir sem eiga verk á sýningunni: Mundi, Aftur, Erna Einarsdóttir, Bergþóra Guðnadóttir, Volki, Hrafnhildur Arnardóttur aka. Shoplifter.

Sýningin Fingramál er framlag Hönnunarsafnins á HönnunarMars 2012 og stendur til 20. maí næstkomandi. Nánar um sýninguna

Lesa áfram

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20, flytur dr. Arndís S. Árnadóttir hönnunarsagnfræðingur fyrirlestur í húsakynnum Hönnunarsafns Íslands í Garðabæ um verk Helga Hallgrímssonar (1911-2005) húsgagnaarkitekts.

Helgi telst til frumherja í stétt íslenskra húsgagnaarkitekta sem sóttu nám erlendis á millistríðsárunum. Í verkum hans má greina ríkjandi hugmyndir módernismans um notagildi, efnisnotkun og stíl sem hann vísaði í sem „tímalausan“ og tengja má við nútímalega norræna hönnun eftirstríðsáranna.

Lesa áfram
Gunnar Magnússon ´61-´78  og Hrafnhildur Arnardóttir, Á gráu svæði

Lesa áfram

Síður

Subscribe to RSS - Húsgagnahönnun