Í stofnskrá Hönnunarsafns Íslands er kveðið á um að safnið skuli safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu er lýtur að hönnun, einkum frá aldamótum 1900 og til samtímans. Nú er verið að móta söfnunarmarkmið Hönnunarsafns Íslands en safnið á og geymir um 900 muni, íslenska og erlenda. Frá því að safnið var stofnað árið 1998, hafa aðföng borist safninu með reglubundnum hætti. Stór hluti safneignarinnar eru gjafir en einnig reynir safnið eftir fremsta megni að kaupa inn þýðingarmikla muni fyrir sögu íslenskrar hönnunar. Það er von safnsins að með sameiginlegum vilja hönnunarstéttarinnar, almennings og safnafólks verði safnið eflt og þannig skapist á hverjum tíma góður grunnur fyrir þá miðlun sem því er ætlað að veita. Safnið einbeitir sér ekki einungis að söfnun hönnunargripa heldur safnar það vinnuteikningum og gögnum er varða vinnu hönnuða hér á landi. Í því skyni hvetur safnið hönnuði og arkitekta til að hafa samband við safnið og skoða þennan þátt í starfsemi safnsins. Safnið mun að auki einbeita sér að því að safna saman heimildum um íslenska hönnuði og efla bókakost sinn um íslenska og alþjóðlega hönnun.