Sunnudaginn 7. júlí verður dagskrá fyrir alla fjölskylduna í Hönnunarsafninu. Aðgangur er ókeypis.

FJÖLSKYLDULEIÐSÖGN Kl. 14:30 um yfirstandandi sýningu, Óvænt kynni, í fylgd Þóru Sigurbjörnsdóttur fulltrúa safneignar.  Í leiðsögninni mun Þóra flétta inn frásögnum af því starfi sem fram fer á bak við tjöldin í Hönnunarsafninu og varpa ljósi á þá vinnu sem í gangi er á heimildaöflun um íslenska hönnunarsögu.

ÓVÆNT KYNNI - Innreið nútímans í íslenska hönnun (7.6. -13.10. 2013)

Á sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands er sjónum beint að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska híbýlamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Meginuppistaða sýningarinnar er safnkostur safnsins en einnig er skyggnst inn í geymslur annarra safna og í heimahús þar sem óvænt kynni við hluti og sögur af hönnun komu oft á óvart. Á sýningunni má líta bæði vel þekkta hönnunargripi, einkum húsgögn sem öðlast hafa sess með þjóðinni sem tímamótaverk, en einnig óvænta hluti sem greina má jafnt í verkum nafnlausra smiða sem og framsækinna húsgagna- og textílhönnuða á síðustu öld. Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna líkt og krossviðs og krómaðs stáls, notkun járns og nýstárlegra þráða og hvernig frumherjar í húsgagnahönnun mótuðu viðinn á blómatíma húsgagnaframleiðslunnar. Vakin er athygli á merku brautryðjendastarfi íslenskra kvenna við nútíma áklæða- og teppagerð eftir 1945 og nýbreytni tauþrykksins um 25 árum síðar. Sýningarstjórar eru Dr. Arndís S. Árnadóttir og Elísabet V. Ingvarsdóttir hönnunarfræðingur.

PALLURINN 
ÞEKKIR ÞÚ HLUTINN? Sumarsýningu Hönnunarsafnsins er meðal annars ætlað að styrkja rannsóknarhlutverk safnsins um íslenska hönnunarsögu. Hugmyndin með Pallinum er að sýna gripi sem vantar meiri upplýsingar um. Gripum verður skipt út reglulega á meðan á sýningartíma stendur. Einnig verður hægt að fylgjast með á heimasíðu safnsins og á facebook síðu safnins.
Þekking á íslenskri hönnunarsögu er að mótast og eitt stærsta verkefnið sem unnið er að í safninu í dag er að leita upplýsinga og safna og skrá skipulega þessa sögu eftir ýmsum leiðum. Í safneignina hafa ratað hlutir sem lítið er vitað um. Því viljum við nota tækifærið samhliða sýningunni Óvænt kynni, og leita til gesta safnsins eftir upplýsingum. Ef þú býrð yfir vitneskju varðandi hlutinn á Pallinum þætti okkur vænt um að þú deildir henni með okkur. Upplýsingarnar geta verið allt frá því að vera nafn hönnuðar eða smiðs yfir í minningar um gripinn eða grip líkan þeim sem er á pallinum og tímabil.

NÝTT SAFN SKÝTUR UPP KOLLINUM Í GARÐABÆ

SMÁSTUNDARSAFNIÐ KL. 15-17. Spurning dagsins er: Átt þú hlut sem þú hefur aldrei áttað þig á hvernig virkar eða hvað hann gerir? Ef svo er, er Smástundarsafnið rétti vettvangurinn til að koma með hlutinn á. Þar getur þú rætt við aðra safngesti um þinn hlut og jafnframt hjálpað öðrum að finna út úr því  hvernig þeirra hlutur virkar. Þegar í safnið er komið segir þú frá hlutnum þínum og skráir niður sögu hans. Á meðan taka starfsmenn safnsins ljósmyndir af honum. Frásögnin og ljósmyndin verða síðan færðar inn á vef Smástundarsafnsins http://smastundarsafnid.com/ þar sem þær verða aðgengilegar öllum til lesturs og yndisauka. Að þessu loknu tekur þú gripinn aftur með þér heim þar sem hann heldur áfram að skapa minningar.

Opið frá kl. 12- 17.