Íslenski safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt næstkomandi sunnudag. Hönnunarsafnið tekur þátt í deginum af fullum krafti og fær skemmtilega heimsókn. Þann dag mun söfnum í Garðabæ fjölga um eitt þegar Smástundarsafnið skýtur upp kollinum hjá Hönnunarsafninu.

Hvað er þetta? Hvernig virkar það? Hvað gerir það eiginlega?

Átt þú hlut sem þú hefur aldrei áttað þig á hvernig virkar eða hvað hann gerir? Ef svo er, komdu við á sunnudaginn á milli 15 og 17. Smástundarsafnið tekur við hlutnum, skráir hann og vangaveltur þínar eða annarra um hann. Að sýningu lokinni tekur þú hlutinn aftur heim.
Taktu með þér dularfullan hlut eða hjálpaðu öðrum að finna út því hvernig þeirra hlutur virkar.
Verðum með heitt á könnunni og með því,
Hlökkum til að sjá ykkur!

Smástundarsafnið er samræðuvettvangur þar sem fólki er gert kleift að segja frá og hlýða á frásagnir tengdar efnislegum hlutum. Það sem greinir Smástundarsafnið frá venjulegu safni, fyrir utan tímabundna starfsemi þess, er að það byggir alfarið á þátttöku safnagestanna og eru því frásagnirnar birtar eins og þær voru miðlaðar, óritskoðaðar. Það kannast allir við að eiga hlut sem er ef til vill ekki merkilegur en hann vekur upp minningar í hvert skipti sem þú berð hann augum, saga hans gefur honum gildi. Smástundarsafnið er vettvangur þar sem safngestir geta komið saman og deilt þessum sögum og minningum tengdum þessum hlutum í stundarkorn.
Til þess að taka þátt í Smástundarsafninu þarf að mæta á auglýstan opnunartíma og stað. Þegar í safnið er komið og þú hefur fengið þér kaffi og með því, segir þú frá hlutnum þínum og skráir niður sögu hans, á meðan eru teknar ljósmyndir af honum. Frásögnin og ljósmyndin verða síðan færðar inná heimasíðu Smástundarsafnsins þar sem þær verða aðgengilegar öllum til lesturs og yndisauka. Að þessu loknu tekur þú hlutinn aftur með þér heim, þar sem hann heldur áfram að vera partur af lífi þínu og skapa jafnvel enn fleiri minningar.

Aðgangur er ókeypis á íslenska safnadeginum!
Hönnunarsafn Íslands er opið frá 12- 17 alla daga, lokað mánudaga.