Nú er lokið hljóðfærasmiðju þar sem elstu börnum leikskóla og yngstu börnum grunnskóla ásamt kennurum í Garðabæ hefur verið boðið að koma og taka þátt í listasmiðju undir leiðsögn tónlistarkennaranna Hjartar B. Hjartarsonar og Pamelu De Sensi. Í smiðjunni hafa börnin búið til trompet, flautu, trommu og hristu. Hljóðfærasmiðjan mæltist vel fyrir og voru hin ýmsu tóndæmi æfð. Nemendur vinna svo áfram með hljóðfærin í skólunum og hugmyndin er að útbúa tónverk sem hægt er að spila á Listadögum barna og ungmenna vorið 2012.
Smiðjan var haldin í húsnæði Hönnunarsafns Íslands á Garðatorgi á vegum fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og er hluti af verkefninu HljómList sem er undanfari Listadaga barna og ungmenna 2012.
Verkefnið HljómList hlaut styrk úr Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og markmið þess er að efla nýsköpun og skapandi námsumhverfi barna í leik- og grunnskólum í Garðabæ veturinn 2011-2012.