Í Hönnunarsafni Íslands stendur yfir undirbúningur að sumarsýningu safnsins sem ber vinnuheitið Saga til næsta bæjar. Til sýnis verður vöruhönnun og ýmis verkefni henni tengd, stór og smá. Lögð er áhersla á það sem hefur verið að gerast á síðustu árum og saga þeirra hluta sem valdir hafa verið á sýninguna verður sögð.

Sýningarstjóri er Hlín Helga Guðlaugsdóttir vöruhönnuður.

Mikil breyting hefur orðið á vettvangi íslenskrar hönnunar á síðasta áratug og almenn vakning á gildi hönnunar fyrir samfélög og mikilvægi samstarfs þvert á greinar og jafnvel menningarheima. Verkin á sýningunni varpa ljósi á hvernig vöruhönnuðir á Íslandi hafa nálgast fag sem víðast hvar annarsstaðar byggir á langri hefð vöruframleiðslu og iðnaðar. Þessi verkefni eru oft á tíðum þverfagleg, margbreytileg og mikilvæg í mótun landslags vöruhönnunar á Íslandi og jafnvel einnig fyrir íslenskt samfélag. Fyrst og síðast snýst þetta um fólkið sjálft, hönnuðina sem hafa látið að sér kveða á síðasta áratug og nýjar raddir yngri kynslóðarinnar.

Saga til næsta bæjar, felur í sér ferðalag sem hvergi nærri er lokið. Sagan getur orðið okkur til hvatningar, mörgum til umhugsunar og flestum til frásagnar.

Nánari upplýsingar um sýninguna koma fram í lok maí á heimasíðu safnsins.

Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 7. júní kl. 17 og mun standa fram í október. Fræðsludagskrá með leiðsögnum og samtali hönnuða um verk þeirra verður hluti af sýningarverkefninu.