Föstudagskvöldið 5. febrúar er Safnanótt í söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Hönnunarsafnið hefur ávallt boðið upp á fjölbreytta dagskrá á þessu kvöldi. Við bjóðum alla velkomna til okkar, aðgangur er ókeypis og það er tilvalið að gefa sér góða stund til að skoða. Tvær sýningar eru í sölum safnsins, annars vegar sýningin ,,Geymilegir hlutir" á munum úr safneign safnsins þar sem áhersla er lögð á að segja frá uppbyggingu safnkosts þessa unga safns og um leið hvernig verið er að rannsaka íslenska hönnunarsögu. Hin sýningin er yfirlitssýning á verkum leirlistakonunnar Steinunnar Marteinsdóttur sem fagnar áttræðisafmæli sínu síðar í þessum mánuði. Steinunn er einn mikilvirkasti íslenski leirlistamaðurinn okkar. Hún hefur farið ótroðnar slóðir í sinni sköpun og segir frá ýmsu í hálftíma langri viðtalsmynd sem Hönnunarsafnið lét taka upp í tengslum við undirbúning sýningarinnar. Ljósmyndirnar sem birtar eru með þessari frétt voru teknar á opnun sýningar Steinunnar, þann 9. janúar síðastliðinn. Dagskrá Safnanætur er þessi:

Kl. 19:30  og  22:30

HVERJU OG HVERNIG SAFNAR SAFN?

Leiðsagnir um sýninguna Geymilegir hlutir .

 

Kl. 20—20:30   og   kl. 21:30—22

SÖGUSMIÐJUR

Börnum og foreldrum boðið í Sögusmiðjur í framhaldi af erindi um tröll og álfa á Bókasafni Garðabæjar. Sýningin Ísland er svo keramískt er notuð sem innblástur fyrir stuttar frásagnir.

 

Kl. 21—23

LEIÐSÖGUMENN

Þau Auðunn, Ásta, Nadía og Unnur, nemendur úr Fjölbrautaskóla Garðabæjar, segja frá gripum á sýningunni Geymilegir hlutir sem þeim þykja áhugaverðir.

 

Kl. 21

LEIÐSÖGN ÍSLAND ER SVO KERAMÍSKT

Vigdís Gígja Ingimundardóttir verður með leiðsögn um yfirlitssýninguna Ísland er svo keramískt  - verk frá ferli Steinunnar Marteinsdóttur leirlistamanns.