Þann 22. mars síðastliðinn var sýningin ,,Ertu tilbúin frú forseti?“ opnuð í Minjasafninu á Akureyri.

Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðraði opnunargesti með nærveru sinni en safnstjóri Minjasafnsins á Akureyrir, Haraldur Þór Egilsson og Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands buðu gesti velkomna. Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Kristín Ástgeirsdóttir hélt ræðu og bæjarstjóri Akureyrar, Eiríkur Björn Björgvinsson opnaði sýninguna. Fjöldi gesta sótti opnunina og mátti sjá mikla ánægju skína úr augum viðstaddra með það sem fyrir augu bar á sýningunni.

Það er Hönnunarsafni Íslands mikið gleðiefni að sýningar safnsins öðlist eftirlíf. Sýningin á fatnaði og fylgihlutum frú Vigdísar Finnbogadóttir er hönnuð af Systu Björnsdóttur sýningahönnuði sem fædd er og uppalin á Akureyri. Á Akureyri var haldið í sama útlit sýningarinnar, eins og hún var hönnuð fyrir Hönnunarsafnið, þó í örlítið smækkaðri mynd.

Sýningin mun standa út árið í Minjasafninu á Akureyri.

Í sýningarnefnd sýningarinnar eru: Ástríður Magnúsdóttir, Guðrún Hildur Rosenkjær og Harpa Þórsdóttir.

Myndin sem fylgir fréttinni var tekin af Skapta Hallgrímssyni og birt hér með góðfúslegu leyfi. Á henni eru frá vinstri: Harpa Þórsdóttir, Eiríkur Björn Björgvinsson, Frú Vigdís Finnbogadóttir, Haraldur Þór Egilsson og Ástríður Magnúsdóttir.