Sýningin Ertu tilbúin frú forseti ? sem nýverið lauk í Hönnunarsafni Íslands verður sett upp í Minjasafninu á Akureyri og opnuð þar formlega 21. mars næstkomandi. Samstarf safnanna er í samræmi við stefnu Hönnunarsafns Íslands að þjóna hlutverki sínu með miðlun og starfsemi, á landsvísu.

Ertu tilbúin frú forseti ? er fjölsóttasta sýningin sem Hönnunarsafnið hefur sett upp og hefur hlotið mikið lof íslenskra og erlendra gesta safnsins. Á sýningunni er varpað ljósi á margþætt verkefni frú Vigdísar Finnbogadóttur á forsetatíð hennar. Fatnaður og ýmsir fylgihlutir Vigdísar leiða gesti inn í veröld þjóðarleiðtoga, fyrirmennna og embættismanna ýmissa ríkja.

Glæsilegar kjólar og dragtir eru á sýningunni en við val sýningarnefndar á þeim, var haft í huga að fatnaðurinn hefði sögulegar tengingar við feril Vigdísar. Í sjónvarpsviðtali sem Eva María Jónsdóttir tók við Vigdísi og sýnt er, koma fram þær áherslur sem Vigdís lagði í fatavali sínu og þá vinnu sem fólst í því að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar. Í viðtalinu eru ýmsir viðburðir og sögur rifjað upp og margt fróðlegt sem tengdist hefðum og reglum sem fæstir átta sig, dregið fram.

Hönnunarsafnið gaf út bók í tilefni sýningarinnar. Í henni eru fjöldi ljósmynda af Vigdísi og fatnaði hennar. Sögulegum staðreyndum um fatnaðinn er gerð skil, en í tilefni útgáfunnar voru kjólar Vigdísar sem hún notaði við opinberar athafnir myndaðir ásamt þeim orðum sem Vigdís bar. Í grein dr. Karls Aspelund: Hví skyldum við skoða föt Vigdísar? er varpað áhugaverðu ljósi á mátt kvenna út frá klæðaburði þeirra.

Sýningarnefnd sýningarinnar skipa: Ástríður Magnúsdóttir, Harpa Þórsdóttir og Guðrún Hildur Rosenkjær.

Sýningarhönnuður er Systa Björnsdóttir

 

 

Eftirtaldir einstaklingar og fyrirtæki styrktu gerð sýningarinnar:

Ingunn Wernersdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, Elín Sigrún Jóhannesdóttir, Actavis, Borgun, World Class, Rio Tinto Alcan, Já.is