Þann 16. september n.k. standa fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar og Hönnunarsafn Íslands fyrir námsstefnu í nýsköpun og frumkvöðlamennt fyrir leik- og grunnskólakennara í Garðabæ. Námsstefnan verður haldin í smiðju í Hönnunarsafni Íslands.

Dr. Rósa Gunnarsdóttir sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu verður með vinnusmiðju í nýsköpunar og frumkvöðlamennt fyrir starfsmenn leik- og grunnskóla Garðabæjar.

Í vinnusmiðjunni mun Rósa leggja áherslu á hvernig virkja má enn frekar fjársjóðinn sem býr í hverri manneskju, hugvitið. Aðaláhersla verður á hagnýtar upplýsingar og reynslu fyrir kennara sem finna hjá sér hvöt til að auka skapandi vinnu í starfi sínu. Vinnusmiðjan verður alsett örlestrum sem byggja á nærri tveggja áratuga reynslu af nýsköpunar- og frumkvöðlamenntakennslu hér á landi og erlendis. Með barnið að leiðarljósi verður farið á einfaldan hátt í hvernig má gera bæði skapandi hugsun og skapandi starf að veruleika innan veggja venjulegrar skólastofu. Þátttakendur munu fara í gegnum feril frá þörf til afurðar á einum degi og bæta þannig í verkfærakistu kennara sem áhuga hafa á að auka skapandi vinnu í sínu starfi.

Markmið námsstefnunnar er að kveikja á hugmyndum sem nota má í daglegu starfi skólanna en fyrst og fremst verður lögð áhersla á skapandi uppfinningaferli og náminu sem á sér stað þegar hugmyndir verða að veruleika.