Armstóllinn á Pallinum er hannaður af Gunnari Theódórssyni (1920-2002). Stóllinn er úr svartlituðum harðvið og klæddur ullaráklæði. Áklæðið er ekki upprunalegt en íslenskt engu að síður og framleitt af Gefjun.

Gunnar Theódórsson stundaði nám í húsgagnabólstrun og síðar innanhússarkitektúr í Kaupmannahöfn á árunum 1938-1945. Eftir að hann kom heim úr námi starfaði hann hjá Húsameistara Reykjavíkurborgar til 1954, rak eigin teiknistofu frá 1954-1971 og vann hjá Skrifstofum ríkisspítalanna frá 1971–1995. Gunnar var einn af stofnfélögum Félags húsgagnaarkitekta árið 1955. Stofnfélagar voru, auk Gunnars, Árni Jónsson, Helgi Hallgrímsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Sigurgísli Sigurðsson og Sveinn Kjarval. Hægt er að skoða gripi eftir þá alla nema Sigurgísla og Gunnar á sumarsýningu safnsins Óvænt kynni. Innreið nútímans í íslenska hönnun

Okkur leikur forvitni á að vita hvort að gestir safnsins muni eftir þessum stól. Það er vitað að stólarnir voru smíðaðir hjá Hjálmari Þorsteinssyni & co á árunum 1953 – 1960. Hinsvegar er ekki vitað hversu mikið var framleitt af þeim.

Býrð þú yfir vitneskju um stólinn á Pallinum? 

Sendu okkur línu á honnunarsafn@honnunarsafn.is

Safnið er opið alla daga frá 12-17, nema á mánudögum.

Verið velkomin!