Í tilefni af útgáfu bókar um hönnunarferil og verk Kristínar Þorkelsdóttur verður fagnað í Hönnunarsafni Íslands sunnudaginn 31. október kl. 13-15 þar sem nú stendur yfir yfirlitssýning á verkum Kristínar. Bókin verður á tilboðsverði.

Fáir hér á landi hafa skilað af sér jafn mörgum þekktum verkum sem skipa viðlíka sess í íslenskri sjónmenningu og Kristín, auk þess sem hún stofnaði og rak eina mikilsvirtustu auglýsingastofu landsins um árabil.

Fyrirlestur um inntak bókarinnar og hönnunarferil Kristínar hefst kl. 13.
Sýningarstjórar, höfundar og hönnuðir bókarinnar, Bryndís Björgvinsdóttir, Birna Geirfinnsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson, flytja fyrirlesturinn.

Útgáfuboð hefst kl. 14.
Höfundar bókarinnar eru Bryndís Björvinsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur og Birna Geirfinnsdóttir bókahönnuður. Báðar gegna þær stöðu dósents við Hönnunardeild Listaháskóla Íslands.

Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir) hönnuðu bókina sem telur 240 bls. Bókaforlagið Angústúra gefur bókina út.


Eftirtaldir aðilar styrktu gerð bókarinnar:
Seðlabankinn
Hönnunarsjóður
Listaháskóli Íslands
Miðstöð íslenskra bókmennta
Reykjavíkurborg