Sunnudaginn 25. október kl. 14:00 verður Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur sem hefur umsjón með safneign Hönnunarsafnsins með leiðsögn um sýninguna Geymilegir hlutir og kynnir verkefnið Safnið á röngunni í Hönnunarsafni Íslands.

Á þeim tíma frá því að Hönnunarsafn Íslands var stofnað, árið 1998, hefur safneignin styrkst og umsvif starfseminnar aukist. Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að séu varðveittir í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.
Geymilegir hlutir eru úrvalsmunir sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum. Hönnunarsafn Íslands hefur það mikilvæga hlutverk að marka sögu íslenskrar hönnunar með safneign sinni og stígur stór skref þessi árin.
Safnið á röngunni er verkefni sem var sett af stað í byrjun sumars og mun standa út árið. Innsta rými í sýningarsal safnsins var breytt í vinnusvæði starfsmanna. Þar er reynt að varpa ljósi á hvaða vinna þarf að fara fram til þess að sýning geti orðið til, og hvaða vinna er unnin á bak við tjöldin.

Allir velkomnir!