Árið 2012 er senn á enda og því ekki úr vegi að fara yfir það sem gerst hefur í starfi safnsins.
Fjórar sýningar hafa verið settar upp í safninu á þessu ári. Við byrjuðum á að opna litla sýningu um „Sjálfsagða hluti“ með vinnusmiðju fyrir skólahópa. Á  HönnunarMars stýrði Steinunn Sigurðardóttir sýningunni „Fingramál“, þar sem valdir fatahönnuðir fengu það verkefni að hanna úr prjóni. Sumarsýningin „Saga til næsta bæjar“ snerist um vöruhönnun og sýningarstjóri var Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Í haust lögðum við allan sýningarsalinn undir grafíska hönnun þegar yfirlitssýningin „Gísli B.- Fimm áratugir í grafískri hönnun“ var sett upp undir stjórn Ármanns Agnarssonar.

Haldin voru málþing um vöruhönnun og framtíð hennar, einnig fór fram spjall um matarhönnun og var það afar áhugavert. Dögg Guðmundsdóttir kom í heimsókn og miðlaði af sinni reynslu sem vöruhönnuður í gegnum vinnusmiðju sem stóð heilan dag. Goddur hélt  vel sóttan fyrirlestur um grafíska hönnun á Íslandi. Að síðustu má nefna að tvær bækur voru gefnar út af safninu  á árinu sú fyrri um Gísla B. Björnsson bókin ,, Fimm áratugir í grafískri hönnun“ og sú síðari ,,Gunnar Magnússon, húsgögn og innréttingar" um feril Gunnars Magnússonar húsgagnahönnuðar og innanhúsarkitekts sem safnið gaf út í samstarfi við fjölskyldu Gunnars.

Ýmislegt annað safnastarf gerist á bak við tjöldin og er það starf ekki síður mikilvægt til þess að hægt sé að halda góðar sýningar og miðla safnkosti. Í tengslum við allar sýningar fer mikið rannsóknarstarf fram þar sem þekking á annars óplægðum akri hönnunar safnast upp. Við erum þakklát öllum þeim sem leggja hönd á plóginn við það starf. Safnið var í samstarfi við önnur söfn innanlands sem utan í tengslum við sýningar á árinu. Að lokum var gerð var gangskör í skipulagi í „props“-geymslunni  og umpökkun muna í betri umbúðir og  munaði þar miklu um aðstoð sumarstarfsmanna.
Góð aðsókn hefur verið á sýningar safnsins í vetur sem og aðra atburði tengda þeim. Sérstaklega má nefna skólahópana sem streyma til okkar úr Garðabænum og víðar. Í desember hefur verið mikið líf í safninu þar sem skólahóparnir hafa unnið verkefni í pappír.
 Við þökkum velunnurum safnsins fyrir góðar gjafir það sem af er ári.