Hönnunarsafn Íslands leitar til almennings að leirmunum frá Glit vegna fyrirhugaðrar sýningar á næsta ári. Glit var stofnað árið 1958 af þeim Einari Elíassyni verslunarmanni, Ragnari Kjartanssyni leirlistamanni og myndhöggvara og Pétri Sæmundsen bankastjóra. Verkstæði Glit var  í bakhúsi á Óðinsgötu í Reykjavík en flutti árið 1967 á Höfðabakka.
Safnið leggur mikla áherslu á að fá upplýsingar um góða Glitmuni og óskar eftir að eigendur þeirra hafi samband við safnið. Fjölskyldur stofnenda Glits vinna að sýningunni í samstarfi við safnið. Árið 2003 var haldin sýning í Listasafni ASÍ með keramiki frá Glit með verkum Ragnars Kjartanssonar og samstarfsmanna hans, það sem þá var sýnt er á skrá sem komin er í hendur Hönnunarsafnsins.
Mikilvægt er að þeir sem eiga vasa, skálar, diska, bollastell og annað það sem merkt er Glit hafi samband við safnið. Glit vörurnar eru auðkenndar með stimpli eða áletrun. Þegar líða tók á 8. áratug síðustu aldar hófst mikil fjöldaframleiðsla á nytjavöru og er safnið að leggja áherslu á gripi sem formrænt sýna gott listfengi og eru fallega skreyttir. Fjöldaframleiðslan er einnig áhugaverð en gott væri ef fólk gæti lýst mununum með mynd eða stuttri lýsingu í tölvupósti til Hönnunarsafns Íslands
honnunarsafn@honnunarsafn.is
Allar nánari upplýsingar eru veittar á opnunartíma safnsins frá kl. 12-17 alla daga, í síma 512 1525.