Guðmundur Oddur Magnússon prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands flytur fyrirlestur í Hönnunarsafni Íslands miðvikudagskvöldið 14. nóvember kl. 20. Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af yfirstandandi sýningu á verkum Gísla B. Björnssonar í safninu.

Í fyrirlestrinum mun Goddur fjalla um fyrstu teiknarana okkar, frumkvöðla grafískrar hönnunar á Íslandi og taka fyrir helstu verk þeirra, áhrif og það umhverfi sem mætti þeim þegar þeir hófu störf.  Ferill Gísla B. Björnssonar verður sérstaklega tekinn fyrir en Goddur segir í nýútkominni bók um Gísla að „hann sé að mörgu leyti samviska fagsins og siðfræðingur. Hann hefur sleitulaust unnið að því allan sinn feril frá upphafi 7. áratugar 20. aldar að gefa starfi grafísks hönnuðar svipmót og virðingu í huga almennings. Hann hefur markað djúp spor á sinni starfstíð sem spannar hálfa öld. Spor sem varða fagurfræðilega, faglega, siðferðislega, félagslega og uppeldislega mörkun starfsgreinar sem við köllum í dag grafíska hönnun. Fyrirbærið varðar tjáskipti, miðlun upplýsinga og þekkingar, varðveislu hennar í formi myndmáls, ritmáls og tenginguna þar á milli. Það varðar líka boðun valds, bæði hins veraldlega og hins andlega. Það varðar svo fjölmiðlun, ímyndasmíði og markaðssetningu, sérstaklega á tuttugustu öldinni þegar prenttækninni fleygir fram, hvort tveggja að gæðum og afköstum. Það er í raun ekki fyrr en á síðasta áratug þeirrar aldar, eða um 1990, sem starfsheitið grafískur hönnuður festist við greinina og verður almennt viðurkennt.”

Fyrirlesturinn hefst sem fyrr segir kl. 20 og er öllum opinn.


Aðgangur er ókeypis og er áhugafólk um sögu íslenskrar hönnunar hvatt til að mæta!