Katrín Snorradóttir, þjóðfræðingur heldur fyrirlestur um rannsókn sína á sundlaugamenningu. Meistaraverkefni Katrínar ber heitið Læra, leika, njóta; Þróun og einkenni sundlaugamenningar og fjallar um menninguna sem orðið hefur til á milli fólks í sundlaugum landsins.

Hvað hefur mótað hegðun fólks í sundlaugarýminu og hvernig hefur sú hegðun áhrif á umhverfi lauganna?

Hvernig verður þrifaplakatið úr sturtuklefanum tákn í hversdagsmenningu á Íslandi og er Snorri Sturluson réttnefndur forfaðir pottahefðarinnar? 

Katrín mun segja sögu úr hversdeginum, sem um leið er mótunarsaga samfélagshönnunar og endurspeglar hvernig sundlaugin er birtingarmynd samfélagsbreytinga, s.s. þegar kemur að líkamsmenningu, tísku, heilsu, lífstíl eða jafnvel pólitík.