Á dögunum hélt Garðabær upp á 40 ára afmæli sitt með hátíðlegri dagskrá á Garðatorgi. Af þessu tilefni bauð Hönnunarsafn Íslands valinkunnum Garðbæingum að velja sér safngrip úr varðveislurýmum safnsins til að setja upp á safnmunasýninguna Geymilegir hlutir.

Sjö Garðbæingar mættu á tilsettum tíma og fylgdi starfsfólki safnsins um varðveislurýmin og fékk dálitla innsýn í verkefni starfsfólks. Á afmælisdaginn sjálfan var búið að stilla safngripnum upp ásamt stuttri frásögn sem skýrði af hverju viðkomandi valdi þann grip.

Fyrstu þáttakendurnir voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Ólafur G. Einarsson fyrrverandi ráðherra, Andrea Magnúsdóttir fatahönnuður og bæjarlistamaður Garðabæjar 2016, Inga Lind Karlsdóttir framleiðandi, Sigríður Klingenberg spámiðill, Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Sigurður Sveinn Þórðarson eða Siggi dúlla, starfsmaður Störnunnar og íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Skoða má hvað þetta úrvalsfólk valdi því gripina verður að finna á sýningu safnsins á næstu mánuðum og stefnt er að því að bjóða fleiri Garðbæingum að velja þegar styttist til jóla.