Gengið um með Helgu Björnsson

sunnudagur, 3 maí, 2015 - 14:00 - 15:00
Gengið um með Helgu Björnsson

Helga Björnsson tískuhönnuður mun ganga um sýningu á teikningum sínum í fylgd Hörpu Þórsdóttur forstöðumanns og rifja upp minningar og sögur tengdar ferli sínum sem tískuhönnuður í hátískunni í París.

Helga Björnsson lærði myndlist og hönnun við Les Arts Décoratifs í París. Að loknu námi komst hún að í tískuhúsi Louis Féraud. Hún starfaði við hlið Louis Féraud, við hátískuna á 8., 9. og 10. áratug síðustu aldar, lengst af sem aðalhönnuður. Sá heimur sem Helga tilheyrði, hátískuheimurinn, er á margan hátt frábrugðinn því sem flestir þekkja, en innan tískuheimsins er lagskipting þar sem tískukóngar – og tískudrottningar ráða ríkjum. Hátískan trónir efst með íburði sínu og glæsileika.

Það er eftirsótt staða að starfa í tískuhúsi sem tískuhönnuður. Fatnaður sem tilheyrir hátískunni er einstakur. Ekki eru gerðar fleiri en ein flík sem þýðir að tískuhönnuðurinn er í stöðugri leit að innblæstri í krefjandi umhverfi. Teikningar og skissur Helgu afhjúpa þann kraft sem hönnuðurinn þarf að búa yfir í starfi sínu í tískuheiminum.

Un peu plus, gætum við þýtt með orðunum aðeins meira. En tískuhönnuður sem starfar við hátískuna, leitast ávallt við að ganga skrefinu lengra. Hann ögrar sjálfum sér til að kanna nýjar leiðir. Sjálf tileinkaði Helga sér ákveðið fyrirheit þegar hún hófst handa við að skapa. 

Kíkið við á sunnudag kl. 14:00 og heyrið sögur úr heimi hátískunnar í París.