Fréttir

Fyrsta laugardag hvers mánaðar í vetur verða svokölluð „pop-up“ hér eftir nefnt „smástundar-markaður“ í safnbúð Hönnunarsafnsins. Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2016, barnafatamerkið AS WE GROW, ríða á vaðið með sölu á sýnishornum laugardaginn 7. október frá 12 - 17. Peysur og kjólar á 5.000 kr., kápur á 5.500, buxur og skyrtur á 3.000 kr. Það verður líf í tuskunum.

Í umsögn dómnefndar um As We Grow segir: 

Með vörulínunni tvinna eigendur As We Grow saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða. As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman. 

Lesa áfram

Verið velkomin á uppskeruhátíð Nordic Angan, laugardaginn 30 september milli 12.00 - 17.00. Í sumar hafa Þær stöllur hjá Nordic Angan, Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir, verið með sýningar- og vinnuaðstöðu í anddyri Hönnunarsafnsins þar sem þær hafa unnið að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir. Samhliða kortlagningunni hafa þær nýtt afurðirnar í hönnun og framleiðslu á handgerðum reykelsum, kertum, ilmmyndum, plakötum og veggfóðri. Þessar afurðir verða til sölu á uppskeruhátíðinni og Sonja og Elín munu fræða gesti um verkefnið og bjóða upp á blóma smakk.

Lesa áfram
Lifandi sýning í anddyri Hönnunarsafnsins 20.06 – 20.09 2017
Þær Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hafa komið sér upp sýningar- og vinnuaðstöðu í anddyri Hönnunarsafnsins. Í sumar munu þær vinna að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir.  Samhliða kortlagningunni nýta þær afurðirnar í hönnun og framleiðslu á handgerðum reykelsum, kertum, ilmmyndum og veggfóðri svo eitthvað sé nefnt. 
Lesa áfram

Hönnunarsafnið hefur verið í samstarfi við Textílfélagið um heimildasöfnun frá félögum þess um feril þeirra og verk. Safnast hefur inn mikið og gott magn upplýsinga. Gögnin verða varðveitt í heimildasafni safnsins þar sem þau verða aðgengileg starfsfólki og fræðimönnum sem rannsaka íslenska hönnunarsögu á hverjum tíma.

Í tengslum við þetta átak í heimildasöfnun eignaðist safnið rúmlega 20 verk eftir félaga Textílfélagins. Með því hefur safneign safnsins styrkst töluvert þegar kemur að textílverkum og kominn er góður grunnur að áframhaldandi söfnun og skráningu á þessu sviði.

Hönnunarsafnið þakkar Ingiríði Óðinsdóttur og Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur sérstaklega fyrir sitt vinnuframlag sem og félögum Textílfélagins fyrir að taka þátt í þessu verkefni.

 

Lesa áfram

Þær Sonja Bent og Elín Hrund eru að koma sér fyrir í anddyri Hönnunarsafnsins með verkefnið Nordic Angan. Þær hafa verið að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru og eru þessa stundina að draga Heiðmörkina inn í safnið í bókstaflegri merkingu. Við hlökkum til að hafa þær hér í sumar. Á morgun föstudaginn 9. maí verður frítt inn á safnið og opið til kl. 19.00.

Lesa áfram

Mánudaginn 29. maí kl. 17.00 bjóðum við þeim sem vilja vera stofnfélagar í vinafélagi Hönnunarsafnsins velkomna til okkar og skála fyrir vináttunni, sumrinu og næstu skrefum. Tilgangur með stofnun vinafélagsins er að auka veg og sýnileika safnsins, efla safnastarfið, safnkostinn og samtölin.

Vinir safnsins fá:

Boð á allar opnanir safnsin og vinasafna sem verða Gljúfrasteinn og Listasafn Akureyrar.

Frítt inn á sýnigar safnanna þriggja.

Frítt inn á fyrirlestra sem söfnin bjóða upp á.

10% afsláttur af bókum og vörum hjá Hönnunarsafninu.

Frítt inn á leiðsagni á vegum safnanna.

Að stuðla að því að Hönnunarsafn Íslands vaxi og dafni.

Meðlimir vinafélagsins greiða fasta upphæð árlega, 5000 kr, sem verður sá fjárhagslegi grunnur sem vinafélagið byggir á.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Lesa áfram
Sunnudaginn 21. maí bjóðum við upp á leiðsagnir þar sem skyggnst verður bak við tjöldin í Hönnunarsafninu.
Gestir fá tækifæri til að ganga um mismunandi vinnurými safnsins og heyra um það fjölbreytta starf sem þar á sér stað.
Í safneign Hönnunarsafnsins eru rúmlega 1300 gripir og mikill meirihluti þeirra eru húsgögn. Mikið starf fer fram í tengslum við safneign safnsins jafnvel þó ekki sé verið að setja upp sýningar.
Í leiðsögn um varðveislurýmin gefst einstakt tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin og kynnast gripum og starfi eina safns landsins sem safnar einvörðungu hönnun og nytjalist.

Takmarka þarf fjölda gesta í hverri leiðsögn og er miðað við 10 gesti í hóp. Fyrri leiðangurinn verður farinn kl. 14.00 og sá síðari kl. 15.30. 
Lesa áfram

Í dag 18. maí er frítt inn í Hönnunarsafn Íslands í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum. Safnið er opið frá 12.00 - 17.00

Today, the 18th. of May, is the Internationa Museum Day and we offer you to visit the Museum of Design and Applied Art free of charge. We are open from 12.00 - 17.00.

Lesa áfram

Nýverið færði Bláa Lónið Hönnunarsafni Íslands  íslenskt leirmunasafn að gjöf. Leirmunasafnið samanstendur af fjölbreyttu úrvali muna eftir nánast alla íslenska og erlenda leirlistamenn sem starfað hafa hér á landi.


Safnið sem var í eigu einkaaðila telur um 1500 muni frá upphafi leirlistar og leirmunagerðar á Íslandi frá 4. áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Á meðal munanna eru verk eftir Guðmund frá Miðdal og Listvinahúsið, Ragnar Kjartansson, Funa, Hauk Dór,Steinunni Marteinsdóttur, Koggu, Kristínu Ísleifsdóttur, Dieter Roth og fleiri listamenn. Óhætt er að segja að sögu íslenskrar leirlistar megi lesa í gegnum safnið.

 

Lesa áfram

Á dögunum færði Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt Hönnunarsafninu forláta kaffistell úr smiðju Dieter Roth frá árinu 1960 er hann vann með Ragnari Kjartanssyni í Glit á Óðinsgötunni. Gamla Glit, eins og sagt er um þennan tíma hjá Glit, laðaði að sér unga listamenn sem störfuðu við að renna og skreyta leirmuni undir styrkri handleiðslu Ragnars, sem sá um listræna stjórnun fyrirtækisins. Dieter vann ekki lengi hjá Glit en þau verk sem hann vann eru eftirsótt á markaði enda mikil listaverk eins og kaffistellið í eigu safnsins ber vott um, það samanstendur af 7 bollum og undirskálum auk annarra fylgihluta.

Á myndinni er Þóra Sigurbjörnsdóttir frá Hönnunarsafninu ásamt gefandanum, Auði Sveinsdóttur.

 

Lesa áfram