Árið 2013 er senn á enda og því ekki úr vegi að rifja upp eitt og annað sem hefur átt sér stað í Hönnunarsafninu.

Fjórar sýningar hafa verið settar upp í safninu á þessu ári. Við byrjuðum á að opna sýninguna Innlit í Glit. Sýningin varpaði ljósi á árin 1958 til 1973 í sögu Leirbrennslunnar Glit. Safnið hefur tekið þátt í HönnunarMars á hverju ári frá upphafi, í ár var boðið upp á sýninguna Nordic Design Today. Sýningin kom frá Röhsska, hönnunarsafni Svía og sýndi verk sex hönnuða sem allir hafa hlotið hin virtu Söderberg verðlaun. Sumarsýningin Óvænt kynni í sýningarstjórn Elísabetar V. Ingvarsdóttur og Arndísar S. Árnadóttur var opnuð í júní og lýkur í janúar 2014. Sýningin beinir sjónum að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska hýbílamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Í desember settum við upp aðra farandsýningu, í þetta sinn frá Noregi þar sem umfjöllunarefnið er norskt handverk. Sýningin Paradigm eða Viðmið stendur út febrúar 2014.

Haldnir voru nokkrir fyrirlestrar í safninu í ár fyrir utan leiðsagnir um sýningarnar. Gísli B. fjallaði um góð og slæm merki. Norski skartgripahönnuðurinn Sigurd Bronger kom í heimsókn og hélt erindi um skartgripahönnun sína og fór það fram í Norræna húsinu. Safnið fékk Smástundarsafnið í heimsókn á íslenska safnadaginn þann 7. júlí. Sú heimsókn var afar ánægjuleg og vakti upp spurningar um það hvað og hvernig safn getur verið. Í lok árs fengum við skemmtilega og áhugaverða heimsókn frá Svíþjóð þegar Clara Åhlvik hélt bæði smiðju í safninu og fyrirlestur í samstarfi við Þjóðminjasafnið. Clara fjallaði þar um sýningu sína um illa hönnun (Ond design) sem sett var upp í Röhsska safninu. Fyrirlestur hennar vakti upp ýmsar spurningar varðandi safnastarf sem og um hönnun og neyslu á henni.

Ýmislegt annað safnastarf gerist á bak við tjöldin og er það starf ekki síður mikilvægt til þess að hægt sé að halda góðar sýningar og miðla safnkosti á fjölbreyttan hátt. Í tengslum við allar sýningar fer mikið rannsóknarstarf fram þar sem þekking á annars óplægðum akri hönnunar safnast upp. Við erum þakklát öllum þeim sem leggja hönd á plóginn við það starf.

Sumarstarfsmennirnir okkar, þær Birta og Þórhildur voru okkur innan handar við ýmis brýn verkefni í geymslum sem og við uppsetningu sýninga.

Góð aðsókn hefur verið á sýningar safnsins í vetur sem og aðra atburði tengda þeim.

Við þökkum velunnurum safnsins fyrir góðar gjafir það sem af er ári.