Íslenska

Guðmundur Oddur Magnússon prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands leiða spjall um sýninguna ,,Á pappír“ í Hönnunarsafni Íslands sunnudaginn 19. febrúar kl. 14.

Á sýningunni getur að líta úrval teikninga og skissa úr safneign safnsins og úr einkasöfnum. Verkin á sýningunni gefa mynd af vinnubrögðum hönnuða og myndlistarmanna við gerð umbúða, auglýsinga, bókakápa og húsgagna- og  innanhússhönnunar allt frá þriðja áratug síðustu aldar fram á þann sjöunda.  

Goddur vinnur við rannsókn á myndmálssögu Íslendinga sem felst í greiningu á upphafi og þróun stílsögu innan grafískrar hönnunar og prentiðnar á Íslandi frá um 1840 til stofnunar lýðveldisins 1944.

Goddur mun leggja áherslu á verk Stefáns Jónssonar í spjalli sínu en Stefán bjó yfir margvíslegum stíltökum sem hann notaði eftir því hvert verkefnið var hvort sem var um beinskeytt myndmál til áróðurs að ræða eða anda rómantíkur til að efla þjóðerniskennd og samstöðu.

 

Allir velkomnir!

 

Á sýningunni eru pappírsverk eftir Jónas Sólmundsson (1905-1983), Jón Kristinsson eða Jónda  (1925-2009), Kristínu Þorkelsdóttur (1936), Lothar Grund (1923-1995), Stefán Jónsson (1913-1989) og Sverri Haraldsson (1930-1985).

Sýningarstjórar eru: Ástríður Magnúsdóttir, Harpa Þórsdóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir.

 

Date: 
19. febrúar 2017