Strategic Management

Stefnumótun stjórnar Hönnunarsafns Íslands

Stefnumótun stjórnar Hönnunarsafns Íslands fór fram haustið 2009 að frumkvæði stjórnarinnar og í samstarfi við forstöðumann og yfirmann mennta- og menningarsviðs Garðabæjar. Stefnumótuninni er ætlað að vera rammi fyrir starfsemi safnsins á næstu árum. Stjórn safnsins leggur áherslu á að stofnunin vinni á faglegan hátt að þeim markmiðum sem skilgreind eru í stefnumótuninni. Við vinnuna var stuðst við þá stefnu sem Garðabær hefur lagt fram um Hönnunarsafnið, sjá Stefna í menningarmálum í Garðabæ (2005), bls. 27. Siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) voru lagðar til grundvallar við gerð stefnumótunarinnar svo og stofnskrá Hönnunarsafns Íslands frá 2006. Stefnumótun stjórnar safnsins var lögð fyrir bæjarráð Garðabæjar í mars 2010. Erling Ásgeirsson formaður stjórnar

1. STEFNUMÓTUN STJÓRNAR HÖNNUNARSAFNS ÍSLANDS 2010–2014

1.1. MARKMIÐ

· Að safna hönnunargripum og varðveita þá sem marktækan vitnisburð um íslenska hönnunar- og listhandverkssögu og verða leiðandi stofnun á því sviði. · Að miðla íslenskri og erlendri hönnunarsögu með sýningum, útgáfum og fræðslu fyrir almenning.

· Að stuðla að faglegri umræðu um hönnun og hvetja til rannsókna á íslenskri hönnunarsögu.

· Að taka þátt í sameiginlegri uppbyggingu mennta- og safnastofnana ásamt félagasamtökum hönnuða og afla víðtækari þekkingar og viðurkenningar á íslenskri hönnunarsögu innanlands sem utan.

· Að taka þátt í að efla jákvæða ímynd Garðabæjar sem samfélags þar sem áhersla á hönnun og nýsköpun er í forgrunni.

1.2. LEIÐIR TIL MARKMIÐA

· Að auka opinber framlög til safnsins á stigvaxandi hátt á næstu árum.

· Að afla sértekna fyrir safnið.

· Að fjölga stöðugildum við safnið.

· Að auka fjármagn til kaupa á safngripum til safnsins.

· Að styrkja tengsl við mennta- og safnastofnanir sem og fyrirtæki á sviði hönnunar.

· Að byggja upp vinnustað með góðu starfsfólki og skapa því gott starfsumhverfi.

2. GREINARGERÐ MEÐ STEFNUMÓTUN STJÓRNAR

2.1. HLUTVERK

2.1.1. Núverandi hlutverk Hönnunarsafn Íslands er miðstöð safnastarfsemi á sviði hönnunar og er safnið eina sérsafnið á þessu sviði á Íslandi. Í Safnalögum nr. 106 frá 2001 eru söfn skilgreind sem stofnanir opnar almenningi sem hafa það hlutverk að varðveita, rannsaka og sýna þá hluti sem safnið safnar svo þeir megi nýtast til að efla þekkingu, skilning og áhuga almennings. Samkvæmt stofnskrá safnsins skal safnið móta sér söfnunar- og sýningarstefnu og þannig rækja sitt lögbundna hlutverk.

2.1.2. Framtíðarhlutverk Safnalögin eru nú til endurskoðunar og voru drög að nýju frumvarpi kynnt safnastofnunum haustið 2008. Í 5. gr frumvarpsdraganna koma fram þrír flokkar safna þar sem höfuðsöfnin eru sem fyrr þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þá er flokkur viðurkenndra safna tiltekinn sem og flokkur ábyrgðarsafna. Leiða má sterk rök að því að Hönnunarsafn Íslands muni falla í flokk ábyrgðarsafna verði frumvarpið að lögum. Í ljósi þessarar flokkunar og þeirrar staðreyndar að Hönnunarsafn Íslands er eina safnið sinnar tegundar á landinu, verður lögð áhersla á að efla rannsóknir á sviði íslenskrar hönnunarsögu og varpa ljósi á hana með sýningum og viðburðum. Sökum sérstöðu sinnar innan íslenskrar safnaflóru er ljóst að safnið hefur einstakt tækifæri á næstu árum til að verða leiðandi rannsóknarstofnun til miðlunar á íslenskri hönnunarsögu.

2.2. SAFNKOSTUR

Safnkostur Hönnunarsafns Íslands endurspeglar nú þegar hið breiða söfnunarsvið sem Hönnunarsafnið hefur en skv. stofnskrá safnsins, frá 21. desember 2006, miðast söfnun muna við tímabilið frá um 1900 til samtíma. Stór hluti safnkostsins ber þess þó merki að um tilfallandi gjafir er að ræða og safneignin í dag á langt í land með að endurspegla á heildrænan hátt hönnunarsögu ákveðins tímabils, stílsögu þess eða einn flokk hönnunar umfram annan. Nauðsynlegt er að koma á samfellu í starfsemi safnsins með viðbótarstöðugildi sem nýtist meðal annars til að vinna að söfnunarstefnu og afla safnkosts. Við söfnun muna, varðveislu þeirra og miðlun fer safnið eftir siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM).

2.2.1. Skráning Safneign er skráð af sérfræðingum í miðlægan gagnagrunn, Sarp, samkvæmt faglegum stöðlum og er stefnt að því að varpa safneign safnsins á netið í samræmi við nýja útgáfu gagnagrunnsins sem verið er að vinna. Þannig mun safnið miðla safnkostinum á einfaldan hátt og gera þennan þátt íslenskrar menningarsögu sýnilegri. Mikil vinna hefur farið í það á síðustu mánuðum að yfirfara allar skráningar safnsins, meðal annars vegna þessarar nýju útgáfu, og samræma skrár eftir faglegum stöðlum og heitum. Safnið leggur mikla áherslu á að efla skráningu safnkostsins sem fyrir er í þennan gagnagrunn þar sem við vitum að þær heimildir sem skráðar eru um einstaka gripi safnsins eru oft ekki aðgengilegar almenningi eða námsfólki sem vill kynna sér íslenska hönnunarsögu. Því má líta svo á að safnkostur safnsins og gagnabankinn sem honum tengist í Sarpi verði einstakur gluggi að íslenskri hönnunarsögu sem er sífellt verið að efla. Þessi þáttur, að skrá safneignina í gagnagrunninn, er meðal mikilvægustu verkefna safnsins og hluti af samfelldu starfi þess.

2.2.2. Skyldleiki safnkosts Hönnunarsafns Íslands við safnkost annarra safna Safnkostur Hönnunarsafns Íslands er byggður upp út frá sögulegri nálgun íslenskrar hönnunarsögu þar sem iðnaðarsaga og handverksiðn eru ríkir þættir. Stíl-, form- og fagurfræði er lögð til grundvallar ásamt efnisnotkun og þróunarsögu þessara þátta. Safnkosturinn er ekki byggður upp út frá sögu byggðarlaga líkt og á við um byggðasöfn þar sem atvinnu- og búskaparhættir eru ráðandi þættir í safnkosti safna. Í þeim gripum sem hönnunarsöfn safna má þó jafnan sjá samhengi híbýlamenningar og samfélags og er ljóst að margt í safnkosti annarra safna hér á landi gæti allt eins átt heima í Hönnunarsafni Íslands. Má nefna sem dæmi söfn eins og byggðasöfn, textílsöfn, iðnaðarsöfn, tækniminjasöfn og mörg ljósmyndasöfn. Hönnunarsafn Íslands mun einbeita sér fyrst og fremst að því að safna íslenskri hönnun og miðla íslenskri hönnunarsögu með safnkosti sínum.

2.2.3. Söfnunarstefna Hönnunarsafn Íslands setur sér það markmið að móta stefnu um söfnun muna í öllum þeim flokkum hönnunar sem safnið safnar. Slík vinna er tímafrek og ljóst er að ákveðnir flokkar hönnunargripa þurfa að njóta forgangs í söfnunarmarkmiðum á næstu árum. Mætti kalla það björgunarstarfsemi að huga að þremur flokkum íslenskrar hönnunarsögu 20. aldar og er þá sérstaklega litið til íslenskra húsgagna og til íslenskrar fatahönnunar og textíls. Þriðja forgangsmálið í söfnunarmarkmiðum eru prentgripir. Þessi vinna kallar á samvinnu við sérfræðinga í hverri grein áður en farið er af stað svo niðurstaðan verði nákvæm og markviss söfnun heimilda og gripa. Söfnunarstefnu í öðrum flokkum hönnunar þarf að móta og er þar átt við innanhússhönnun, vöru- og iðnhönnun, gull- og silfursmíði, byggingarlist og leirlist. Í sumum flokkum hönnunar mun safnið einbeita sér sérstaklega að gagnaöflun frekar en að því að afla sjálfra gripanna og mun það meðal annars verða gert vegna skyldleika við önnur söfn sem varðveita nú þegar gripi eða heimildir.

2.2.4. Innkaup og gjafir Gjafir hafa borist safninu með reglubundnum hætti. Með söfnunarstefnu verður hægt að sinna á markvissari hátt þessum mikilvæga þætti í starfsemi safnsins og meta á hverjum tíma hvar er aðkallandi að leita eftir gripum. Siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) fjalla á skýran hátt um hættur á hagsmunaárekstrum og um uppruna safneignar. Hönnunarsafn Íslands stefnir að því að koma innkaupa- og gjafaferli á munum til safnsins í formlegt og lýsandi ferli á næstu árum. Stefnt er að því að setja upp á heimasíðu safnsins lista með aðföngum sem berast.

2.2.5. Varðveisla safnkosts Safnið einsetur sér að fara að siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) hvað varðveislu safnkostsins varðar og taka einungis á móti þeim gripum sem safninu berast án sérstakra kvaða og safnið getur varðveitt. Margt af þeim gripum sem Hönnunarsafnið varðveitir þarf á viðgerð að halda. Gera þarf forvörsluáætlun í samráði við forverði og fara eftir reglum um fyrirbyggjandi forvörslu fyrir safnkostinn. Öryggi safnkostsins þarf að vera tryggt og geymsluhúsnæði þarf að standast öryggiskröfur um geymslur safna. Með flutningi safnsins í endurbætt húsnæði skapast mun öruggari aðstæður fyrir safnkostinn.

2.3. SÝNINGASTEFNA

Á tíu ára starfsafmæli safnsins var ákveðið að flytja safnið til bráðabirgða í annað og betra húsnæði. Þar er meðal annars betra rými sem mun fyrst um sinn nýtast til að halda reglubundnar sýningar. Mun safnið verða opið almenningi allt árið líkt og önnur söfn á höfuðborgarsvæðinu. Sýningastefna safnsins skal endurspegla það yfirlýsta markmið að sýna þá hluti sem safnið safnar svo þeir megi nýtast til að efla þekkingu, skilning og áhuga almennings á hönnun. Eins er það hlutverk safnsins að varpa ljósi á erlenda hönnun og setja hana þannig í samhengi við íslenskt umhverfi hönnunar. Forstöðumaður mun setja fram grófa tveggja ára sýningaáætlun fyrir stjórn safnsins á hverjum tíma. Ætlunin er að í samráði við stjórn safnsins geti hann sett saman faghópa eða rýnihópa til að meta verkefni og sýningar safnsins og unnið með þeim að einstökum verkefnum.

2.3.1. Fastasýning Ekki er enn kominn grundvöllur fyrir fastri sýningu á íslenskri hönnunarsögu út frá safnkosti safnsins eins og kemur fram hér að ofan. Í þessu tilliti vegur þungt að rannsóknir á íslenskri hönnunarsögu eru mislangt á veg komnar og í sumum flokkum er hún nær órannsökuð. Því mun vinna að söfnunarstefnu verða fyrsti vísir að rannsóknum og heimildaöflun sem safninu mun nýtast við gerð fastasýningar. Mikilvægi þess að skapa samfellu í starfi með sérfræðingum er nauðsynlegt og þarf að efla safnið og bæta við stöðugildi þess.

2.3.2. Sérsýningar Safnið áætlar að halda nokkrar sérsýningar á ári og leitast við að gera sem flestum flokkum hönnunar hátt undir höfði. Safnið stefnir að því að sérsýningar þess endurspegli það breiða söfnunarsvið sem safnið hefur. Þá er átt við sýningar úr safneign, sýningar þar sem sýnd eru verk einstakra hönnuða og lífsstarf þeirra rakið (yfirlitssýningar), sýningar sem varpa ljósi á tímabil og tíðaranda í hönnun, og sýningar á vörum einstakra framleiðenda í íslenskri hönnunarsögu á 20. og 21. öld. Safnið mun einnig leitast við að eiga samstarf um að halda sýningar með öðrum menningarstofnunum, innlendum sem erlendum, og senda sýningar safnsins til annarra safna eftir því sem kostur er.

2.4. MIÐLUN OG FRÆÐSLA

Miðlunarþátturinn er ríkur í starfi hvers safns og Hönnunarsafn Íslands setur sér það markmið að nota þær leiðir sem fyrir hendi eru til að miðla starfsemi sinni, sýningum og safnkosti. Sérstaklega verður litið til heimasíðunnar sem nauðsynlegs tækis til að miðla starfsemi safnsins og til gagnvirkrar notkunar að einhverju leyti. Nú þegar er gagnvirkni fyrir hendi á Facebook-síðu safnsins, en hún er aðallega hugsuð sem tilkynningamiðill. Mikilvægi útgáfu bæklinga og rita um sýningar og rannsóknir sem safnið vinnur að skal síst vanmeta í ljósi þess litla efnis sem gefið hefur verið út um íslenska hönnun.

Safnið setur sér markmið um faglega meðhöndlun efnis í útgáfum sínum og leitar til sérfræðinga eftir því sem á þarf að halda. Fræðsla safnsins felst að miklu leyti í því að taka á móti hópum og kynna þeim: a) safnkost safnsins, b) yfirstandandi sýningar, og c) safnafræðileg mál sem snúa að safninu. 

Safnið leggur áherslu á að sinna öllum skólastigum og að stofna til samvinnu við menntastofnanir varðandi heimsóknir í safnið. Eitt af stærri hlutverkum safnsins er almenningsfræðsla og verður henni sinnt eftir föngum í tengslum við sýningar þess. Að auki mun safnið setja sér ákveðin markmið með fyrirlestrahaldi um íslenska hönnunarsögu í beinu samhengi við það átak sem þarf að fara fram hvað varðar söfnunarstefnu safnsins.

2.5. RANNSÓKNARSTEFNA

Hönnunarsafn Íslands hefur sem safnastofnun skilgreinda ábyrgð gagnvart íslenskri hönnunarsögu skv. Safnalögum frá 2001 og stofnskrá safnsins frá 2006. Nú þegar hefur safnið í nokkurn tíma veitt einum doktorsnema starfsaðstöðu í safnhúsi safnsins. Hefur það fyrirkomulag reynst safninu vel og nýst á margan hátt fyrir báða aðila. Í ljósi þess hve lítið er um rannsóknir á íslenskri hönnunarsögu á háskólastigi, sem gagnast safninu á beinan hátt, er stefnt að því að efla samvinnu við skóla á háskólastigi um rannsóknir á gripum safnsins og á almennri íslenskri hönnunarsögu. Einnig mun safnið kappkosta að sýningar safnsins séu unnar út frá markmiðum rannsókna þannig að ákveðnar sýningar safnsins séu niðurstöður rannsóknarvinnu sem safnið hefur átt frumkvæði að. Safnið stefnir að því að bjóða námsmönnum á háskólastigi aðstöðu til rannsókna og vera þeim innanhandar í samvinnu við þær menntastofnanir sem eiga hlut að máli. Fræðasamfélagið mun að auki geta fengið aðgang að safnkosti safnsins og notið vinnuaðstöðu í safninu.

2.6. HEIMILDIR

2.6.1. Bókasafn Hönnunarsafn Íslands stefnir að því að auka bókakost sinn jafnt og þétt og viða að sér jafnt íslenskum sem erlendum ritum, bókum og sýningarskrám, sem æskilegt er að safnið eigi og nýtist til starfsemi þess og fræðslu. Þessi þáttur í uppbyggingu safnsins hefur ekki verið stór hingað til en brýnt er að sinna honum.

2.6.2. Heimildasafn Heimildasafnið þarf einnig að efla en nú er stöðugt unnið að því að safna heimildum um íslenska hönnuði frá upphafi 20. aldar til dagsins í dag. Frumheimildir sem safnið skal safna, eftir því sem við verður komið, eru bréf og textar hönnuða, skissur og frumdrög verkefna svo og ljósmyndir og aðrar heimildir sem skýra vinnuferli hönnuða. Líta má á slíkt safn sem hluta safnkosts þó að það verði skilgreint sem heimildasafn. Smárit og slíkir prentgripir – auglýsingar, bæklingar, vöruskrár og bókverk – eru einnig dýrmætar heimildir sem leggja skal áherslu á að safna. Slíkar heimildir geta einnig flokkast undir prentgripi og til hins almenna safnkosts safnsins. Ljósmyndir eru mikilvægar í heimildasafni Hönnunarsafns Íslands. Bæði er þar um að ræða skrásetningu á sjálfum safnkostinum svo og heimildir um hönnunargripi sem til eru eða hafa verið til og nota má við rannsóknir á íslenskri hönnunarsögu. Einnig skal í framtíðinni flokka heimildir um innanhússarkitektúr á grundvelli ljósmynda. Stefnt skal að því að flokka myndefni sem safninu berst og varðveita í ljósmyndagrunni.

2.7. SAMVINNA 

Hönnunarsafn Íslands er hluti íslenskrar og erlendrar safnaflóru. Að auki tengjast aðrar stofnanir og samtök starfsemi safnsins. Alla samvinnu tengdra aðila skal efla og er það mikilvægt verkefni sem Hönnunarsafn Íslands stefnir að skilgreiningu á, á næstu árum. Verður þá horft til sýningahalds, rannsóknarverkefna og til annarra viðburða sem heyra til starfsemi safnsins. Hér hefur þegar verið minnst á mikilvægi þess að hefja samstarf á akademískum grundvelli um verkefni sem tengjast íslenskri hönnunarsögu. Einnig skal skilgreina í samráði við Safnaráð hvert er höfuðsafn Hönnunarsafns Íslands skv. núgildandi lögum.

2.7.1. Bókasafn Garðabæjar Stefna skal að samstarfi við bókasafn Garðabæjar um skráningu á bókakosti Hönnunarsafns Íslands.

2.7.2. Arkitektafélag Íslands Stefna skal að samvinnu um varðveislu Hönnunarsafns Íslands á samkeppnisgögnum samkeppna sem fara fram eftir reglum AÍ.

2.7.3. Hönnunarmiðstöð Íslands Stefna skal að reglulegum samráðsfundum um hlutverk og verkefni Hönnunarsafns Íslands þar sem ráðgast skal við Hönnunarmiðstöð Íslands um sjónarmið og framtíðarsýn. Samvinnu um einstaka viðburði og verkefni, sem stuðla að því að efla áhuga almennings á íslenskri hönnunarsögu, skal skilgreina. Þátttaka í HönnunarMars skal vera árleg og verða Hönnunarmiðstöð Íslands boðin afnot af fjölnotarými Hönnunarsafnsins fyrir viðburði á hennar vegum.

2.7.4. Íslensk söfn Mikilvægt er að Hönnunarsafn Íslands fari með leiðandi hlutverk á sínu sérsviði í samvinnu við önnur tengd söfn. Lán á gripum úr safneign skal metið eftir faglegum reglum eftir því sem óskir um slíkt berast. Sérstaklega skal skoða safnkost ákveðinna safna með tilliti til sambærilegrar söfnunarstefnu safnanna og efla samvinnu um rannsóknir á þeim gripum eða þeim flokkum hönnunar sem hér um ræðir. Sem dæmi má nefna söfn eins og Iðnaðarsafnið á Akureyri, Minjasafn Reykjavíkur (Árbæjarsafn), Þjóðminjasafn Íslands og Ljósmyndasafn Þjóðminjasafns, Ljósmyndasafn Minjasafns Akureyrar og Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

2.7.5. Norræn hönnunarsöfn Efla skal tengsl við norræn hönnunarsöfn og stuðla að því að efla þekkingu á sögu íslenskrar hönnunar í norrænum söfnum. Virk þátttaka á ráðstefnum og öðrum vettvangi safna, svo sem á þingum Alþjóðaráðs safna (ICOM), er mikilvæg. Koma skal á bókaskiptum við norræn söfn. Saga norrænnar hönnunar nýtur ákveðins forgangs í verkefnum safnsins.

2.8. STARFSUMHVERFI

2.8.1. Uppbygging starfsemi Við uppbyggingu starfsemi safnsins skal nota mannauðsstefnu Garðabæjar frá 2008 sem viðmið. Fjölga á starfsfólki Hönnunarsafns Íslands eftir tímasettri áætlun sem skal vera tilbúin um mitt ár 2010. Nú þegar skal undirbúa að stofna til stöðugildis sérfræðings við safnið sem vinnur náið með forstöðumanni að söfnun safnmuna, skráningu þeirra, miðlun og sýningahaldi. Með aukningu stöðugilda verður farið af stað með vinnu verkefna á samfelldan hátt. Þannig styrkist allt faglegt starf og ásýnd safnsins eflist frá því sem verið hefur. Skrifstofuhald vegna rekstrar skal vera svo hóflegt sem hægt er og miðast við hluta úr daglegu starfi forstöðumanns sem nýtur aðstoðar starfsfólks á bæjarskrifstofum Garðabæjar.

2.8.2. Gæslufólk Með flutningi safnsins í endurbætt húsnæði að Garðatorgi skapast nauðsyn á því að ráða gæslufólk. Slíkt fyrirkomulag tengist öryggisþáttum safnsins og ímyndarsköpun. Líta ber á safnið sem vinnustað starfsfólks sem í sameiningu vinnur að því að skapa íslenskri hönnunarsögu sterka og góða ímynd, vekja áhuga á henni og miðla á faglegan hátt. 2.8.3. Safnbúð Æskilegt er að í safninu sé rekin lítil búð. Slíka einingu þarf að byggja upp og er hugmyndin að útgáfur safnsins, kort og plaköt, verði þar til sölu ásamt hlutum tengdum sýningum safnsins og íslenskri hönnun eftir því sem við verður komið.

Garðabær, 24.2.2010